Hvað er það sem líkist kalkún en er í raun kjúklingur? Þykir sérlega heppilegt á veisluborðið og hefur fengið frábæra dóma fyrir bragðgæði?
Það er Veislufuglinn frá Matfugli en hér er um að ræða einstaklega bústinn og fínan kjúkling - svokallaðan premium kjúkling sem minnir fremur á kalkún en kjúkling að sögn matarbloggarans Lindu Ben sem eldaði fuglinn á dögunum og var einstaklega ánægð með útkomuna - sem má sjá hér að neðan.
Linda segir jafnframt að veislufuglinn sé alveg einstaklega safaríkur og mjúkur. Áferðin líkist miklu frekar kalkún heldur en kjúkling nokkurntíman og það sé minna mál að elda veislufuglinn heldur en kalkúninn sem sé klárlega mikill kostur, eldamennskan verði léttari og taki styttri tíma.
„Það eru ótal leiðir til þess að elda veislufuglinn, hægt er að fara afar hefðbundna leið og krydda hann með hefðbundnum kryddum eða fara skrefinu lengra og fylgja þessari uppskrift sem ég mæli að sjálfsögðu með," segir Linda.
„Það fylgir með afar góð fylling eða stuffing með veislufuglinum en hún er geymd inn í fuglinum, það þarf því að passa að fjarlægja hana úr fuglinum áður en hann er eldaður, það ætti ekki að fara fram hjá neinum við meðhöndlun fuglsins. Fyllinguna er hægt að setja beint í eldfatsmót og elda eða bæta allskonar góðgæti í hana og gera aðeins meira úr henni. Ég valdi að gera hið síðarnefnda og varð gríðarlega ánægð með útkomuna. Ég setti svo fyllinguna í fatið með veislufuglinum og bar það fram saman í einu fati sem kom virkilega fallega út," segir Linda að lokum og gjörið svo vel!
Heill ofnbakaður veislufugl með stuffing og öllu tilheyrandi meðlæti
- Veislufugl (u.þ.b. 3,5 kg)
- 100 g smjör
- 2 msk ólífu olía
- 1 dl hvítvín
- Salt og pipar
- Oreganó
- Timjan
- Papriku krydd
- 1 sítróna skipt í tvennt
- Heill hvítlaukur skorinn í tvennt þvert
- Ferskt rósmarín
Aðferð:
- Kveikið á ofninum og stillið á 200ºC.
- Fjarlægið fyllinguna úr fuglinum, skolið fuglinn og þerrið hann vel með eldhúspappír.
- Blandið saman bræddu smjöri, ólífu olíu, hvítvíni og safa úr hálfri sítrónu og hellið yfir fuglinn og inn í hann. Kryddið hann vel með salti, pipar, oreganó, timjan og papriku kryddi. Setjið hálfan hvítlaukshaus inn í holrými fuglsins, hálfa sítrónu og nokkra rósmarín stilka.
- Setjið fuglinn í fallegt fat og bakið kjúklinginn inn í ofni í 20 mín við 200ºC. Lækkið hitann svo niður í 150ºC, stejið kjöthitamæli í miðja bringuna á fuglinum og bakið þar til kjarnhiti nær 72ºC (u.þ.b. 40 mín á hver kíló). Útbúið meðlætið á meðan.
Fylling:
- Fyllingin sem fylgir með veislufuglinum
- ½ laukur
- 100 g sveppir
- 2 gulrætur
- 3 hvítlauksrif
- 1 kjúklingateningur
- u.þ.b. 3 – 4 dl vatn
- 2 frekar lítil græn epli
- 1 dl þurrkaðar apríkósur
- 4 brauðsneiðar
- 2 plómur
- 1 dl græn vínber
Aðferð:
- Skerið brauðsneiðarnar niður í teninga, raðið á ofnplötu og ristið brauðið inn í ofni í u.þ.b. 5 mín þar það er orðið stökkt.
- Skerið laukinn, sveppina og gulrætur smátt niður og steikið á pönnu upp úr olíu. Rífið hvítlauksrifin niður og bætið þeim út á pönnuna ásamt kjúklingakrafti og vatni. Leyfið því að malla í smá stund áður en þið setjið fyllinguna sem fylgir með fulginum út á pönnuna, blandið öllu vel saman.
- Flysjið græn epli og skerið í bita, skerið apríkósur í litla bita og bætið á pönnuna ásamt brauðinu, bætið örlitlu vatnið á pönnuna ef ykkur finnst þetta vera of þurrt.
- Takið fuglinn út úr ofninum þegar það eru um það bil 30 mín eftir af bökunartímanum, takið mesta af soðinu sem hefur myndast í fatinu og geymið fyrir sósuna. Raðið fyllingunni í kring. Setjið aftur inn í ofn og haldið áfram að baka þar til fuglinn er tilbúinn.
- Þegar rétturinn er kominn út úr ofninum, skerið þá plómurnar í sneiðar og vínberin í tvennt, raðið ofan á fyllinguna til að skreyta.
Sætkartöflumús
- 3 meðal stórar sætar kartöflur
- 2 msk smjör
- ½ tsk vanillusykur
- 1 egg
- 1 msk púðursykur
- ½ dl kasjúhnetur
Aðferð:
- Skerið sætukartöflurnar í 3-4 hluta hvor.
- Setjið þær í pott ásamt vatni, látið vatnið ná aðeins yfir kartöflurnar.
- Sjóðið þangað til kartöflurnar eru mjúkar í gegn.
- Flysjið kartöflurnar og setjið þær í hrærivélaskál.
- Setjið smjör út í ásamt vanillusykrinum og hrærið.
- Með hrærivélina í gangi setjið eggið út í.
- Setjið kartöflumúsina í eldfast mót, dreifið púðursykrinum og kasjúhnetunum yfir.
- Bakið í um það bil 15 mín eða þangað til sykurinn og hneturnar eru aðeins byrjaðar að brúnast.
Klassísk rjómalöguð kjúklinga sósa
- ½ laukur
- 100 g sveppir
- 50 g smjör
- 2 dl vatn
- 250 ml rjómi
- Soðið sem myndast af kjúklingnum
- Kjúklingakraftur eftir smekk
- Salt og pipar
- Sósuþykkir eftir smekk
Aðferð
- Skerið laukinn niður og steikið upp úr smjöri, skerið einnig sveppina og bætið þeim á pönnuna.
- Bætið vatni og rjóma á pönnuna, ásamt kjúklingasoðinu, smakkið sósuna til með kjúklingakrafti, salti og pipar. Þykkið sósuna eftir smekk.