Grilluð ostapizza með geggjuðu áleggi

mbl.is/

Hvað er girnilegra en ostapítsa sem búið er að grilla? Bara nákvæmlega ekkert. Hér er búið að setja úrval af ostum á pítsuna sem að sjálfsögðu er grilluð eins og allt þessi dægrin. 

Grilluð ostapizza með chilismjöri og apríkósum

Fyrir einn eða sem smáréttur fyrir tvo.

  • 1 kúla tilbúið pizzadeig
  • 1 Dala Kastali, skorinn í litla bita
  • 3 dl rifinn Óðals Búri
  • 2 ferskar apríkósur, skornar í sneiðar (líka gott að nota t.d. ferskjur eða nektarínur)
  • Góð handfylli ferskt basil og/eða klettasalat

Aðferð:

Fletjið pizzadeigið út þannig að pizzan sé dálítið þykk (svipuð og naanbrauð). Penslið með chilismjöri báðum megin. Hitið grill við meðalhita og leggið pizzadeigið beint á grillið. Þegar þið sjáið loftbólur myndast á yfirborðinu snúið þá við. Dreifið báðum ostum vel yfir pizzuna og lokið grillinu þar til osturinn er bráðnaður og pizzubotninn alveg bakaður í gegn. Toppið með apríkósum og fersku basil eða klettasalati og berið fram strax.

Chilismjör

  • 50 g smjör
  • 2 tsk. chilimauk eða 1 saxaður ferskur chilipipar (minna ef þið viljið ekki sterkt smjör)
  • 1 hvítlauksrif, smátt saxað
  • 2 msk. fersk steinselja
  • Smá sjávarsalt

Aðferð:

Setjið allt saman í pott og hrærið þar til smjörið er bráðnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka