Það eru eflaust nokkrir staðir á heimilinu sem þú hefur ekki hugsað út í að þrífa. Staðir sem eiga það til að gleymast því þeir láta lítið fyrir sér fara. Hér koma nokkrar hugmyndir um hvar og hvernig þú getur notað litla tryllitækið, tannburstann, og heimilið mun þakka þér fyrir.
Þéttilistinn á ísskápnum
Listanum sem umlykur ísskápshurðina getur reynst erfitt að ná hreinum. En ef þú sveiflar tannburstanum þar á milli mun það vera ekkert mál og taka stuttan tíma í framkvæmd.
Kanturinn við vaskinn
Við leggjum það á okkur að gera vaskinn hreinan en Það verður að segjast að við oftar en ekki gleymum kantinum sem liggur utan um vaskinn. Alls kyns matarleifar og kusk á það til að festast þarna á milli sem erfitt er að ná til, en tannburstinn mun leysa þann vanda á augabragði.
Innstungur
Enn einn staðurinn þar sem við erum ekki að fara mikið yfir með tuskuna eru innstungur og slökkvararnir á heimilinu.
Ofninn
Hitastýrinn eða það sem við snúum til að hækka og lækka í ofnunum heima fyrir eru gott dæmi um stað sem þarf að þrífa. Þar á skíturinn og rykið til að festast á milli sem nánast ómögulegt er að þrífa.
Fartölvan
Ein góð regla er að borða ekki á meðan þú vinnur á tölvuna þína. Þú hefur eflaust orðið vitni að því þegar mylsnurnar detta inn á milli bókstafanna á takkaborðinu. Notaðu tannburstann til að þrífa yfirborðið á tölvunni þinni og prófaðu að sleppa því næst að mumsa yfir vinnunni.
Gluggakarmar
Líkt og með ísskápskarma þá eru glugga- og hurðarkarmar í sama flokki. Hér geta litlar köngulær verið kramdar á milli eða einfaldlega ryk frá götunum búið að setjast að.
Niðurfall
Tannburstinn er töfratæki þegar kemur að því að þrífa litlu staðina í kringum kranann á baðherberginu og niðurfallið.
Klósettið
Það er ýmislegt í feluleik í póstulínsskálinni, sérstaklega uppi undir kantinum sem við aldrei sjáum eða náum til. Notaðu tannburstann til að komast þarna að.
Skartgripir
Þú getur frískað upp á skartgripina þína með smá hreinsiefni og mjúkum tannbursta sem mun gera skartið eins og nýtt.
- - -
Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...
Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl