Miðað við allar reglurnar í bókinni færi eflaust allur dagurinn í að dytta að og þrífa heimilið. En þó að við komumst ekki yfir nema rétt um helminginn er alltaf gott að hafa í huga hvað þarf að gera ef maður dettur í þrifgírinn.
Í hvert skipti sem þú opnar hurðina á frystinum flæðir heitt loft inn sem býr til þéttingu í frystinum. Þegar frystirinn byrjar að hríma og fyllast af klaka að innanverðu þarftu að fara taka hann í gegn.
En hversu oft eigum við að þrífa frystinn? Það fer allt eftir því hversu mikill matur er geymdur í frystinum og hversu oft hann er notaður. Einnig veltur það á hvað þú ert að frysta – ertu með brauð sem gefur af sér mylsnu eða opinn baunapoka þar sem nokkrar grænar hafa rúllað út úr pokanum? Þú skalt í það allra minnsta þrífa frystinn einu sinni á ári en oftar eftir þörfum.
Það tekur ekki nema um 10-15 mínútur að þíða frystinn. Allt sem þú þarft að gera er að slökkva á honum og taka allt út. Því næst setur þú pott með sjóðandi heitu vatni inn í frystinn og lokar hurðinni. Gufan af vatninu bræðir ísinn og þá er einfaldara að þurrka hann að innan með rökum klút – þurrka svo vel á eftir með þurrum klút. Og frystirinn verður sem nýr!