Ef að dagurinn í dag er ekki hinn fullkomni humar-risotto dagur þá veit ég ekki hvað. Þessi uppskrift kemur úr smiðju Evu Laufeyjar sem virðist ekki kunna að búa til vondan mat. Við mælum svo sannarlega með þessari snilld enda fátt betra en kaldur drykkur og silkimjúkt risotto á fögrum degi.
Matarbloggið hennar Evu Laufeyjar er hægt að nálgast HÉR.
Risotto með humri
- 1 msk ólífuolía + klípa smjör
- 1 laukur
- 2 hvítlauksrif
- 4 dl arborio hrísgrjón
- 8 dl humarsoð (humarkraftur + soðið vatn)
- 2 dl hvítvín
- Salt og pipar
- 60-80 g parmesan ostur
- 2 msk smjör
Ofan á:
- Smjörklípa
- 12 humarhalar (ca 4 humarhalar ofan á réttinn)
- Salt og pipar
- Steinselja, magn eftir smekk
- Ferskur nýrifinn parmesan
Aðferð:
- Hitið ólífuolíu í potti og steikið laukinn og hvítlauk í 2-3 mínútur. Bætið arborio grjónum út í og hrærið stöðugt.
- Hellið hvítvíninu saman við og leyfið því að sjóða niður, hellið næst humarsoðinu smám saman við og hrærið mjög vel á milli.
- Bætið parmesan ostinum og smjörinu saman við í lokin og kryddið til með salti og pipar.
- Takið humarinn úr skelinni og hreinsið vel. Þerrið mjög vel og steikið upp úr smjöri á pönnu, kryddið til með smá salti og pipar.
- Setjið humarinn yfir hrísgrjónin, saxið niður steinselja og rífið niður parmesan og sáldrið yfir réttinn eftir smekk.