Brauðréttir eru ein af undirstöðufæðutegundum þessarar þjóðar. Til að brauðréttur teljist vel heppnaður þarf hann að fylgja ákveðnum hefðum og þessi hér að neðan gerir það svo sannarlega. Í honum er notast við púrrulaukssúpuduft sem hefur lengi verið í miklu uppáhaldi hjá þjóðinni, svo miklu reyndar að framleiðendur hennar í Noregi hafa furðað sig á óvenju háum sölutölum héðan. Það er engin önnur en Berglind Hreiðarsdóttir á Gotterí.is sem á heiðurinn af þessari uppskrift.
Heitur púrrulauksbrauðréttur
- ½ fransbrauð
- 1 lítill brokkólíhaus
- 1 stk. paprika
- ½ púrrulaukur
- 1 pk. TORO púrrulaukssúpa
- 500 ml rjómi
- 300 ml vatn
- 200 g skinka
- 1 stk. brie-ostur
- Rifinn ostur
- Smjör og olía
- Salt, pipar og hvítlauksduft
Aðferð:
- Smyrjið eldfast mót vel með smjöri og skerið skorpuna af brauðinu.
- Þekið botninn vel með brauði og geymið restina af sneiðunum þar til síðar.
- Skerið brokkólí í munnstóra bita og saxið papriku og púrrulauk. Steikið brokkólí í olíu og kryddið til með salti, pipar og hvítlauksdufti. Þegar það byrjar að brúnast má setja eins og 5 msk. af vatni á pönnuna og leyfa því að gufa upp (þannig mýkist kálið).
- Bætið þá lauk og papriku saman við ásamt meiri olíu og kryddið til.
- Dreifið grænmetisblöndunni yfir brauðið í botninum og útbúið sósuna á meðan á pönnunni.
- Hrærið púrrulauksduftinu saman við rjómann og vatnið og hrærið vel þar til þykkist, takið þá af hellunni.
- Skerið brie-ostinn í litla bita ásamt skinkunni. Dreifið því óreglulega yfir grænmetið ásamt restinni af brauðinu (rífið það niður).
- Því næst má hella sósunni yfir allt saman og rífa vel af osti yfir.
- Bakið síðan við 180°C í um 30 mínútur eða þar til osturinn fer að gyllast.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir