Marissa Mullen bjó til Instagram-síðu fyrir skólafélaga sína úr háskólanum þar sem hún bjó til ostabakka af ýmsum stærðum og gerðum. Sjö árum síðar starfar hún sem ostabakka-áhrifavaldur.
Síðan kallast ThatCheesePlate á Instagram og telur um 154 þúsund fylgjendur. Marissa starfaði sem listrænn stjórnandi hjá skemmtanafyrirtæki en hún sagði starfinu sínu lausu í apríl á þessu ári. Í dag situr hún við skriftir á nýrri bók sem kallast „That Cheese Plate Will Change Your Life“.
Hún hefur alltaf haft mikið dálæti á ostum og ævintýrið byrjaði þegar hún birti myndir reglulega af ostabökkum sem hún útbjó fyrir samnemendur sína í háskólanum. En Marissa segir að ostabakkar færi fólk betur saman. Marissa heldur einnig úti annarri síðu undir nafninu Cheesebynumbers, þar sem hún sýnir hvernig ostabakkarnir eru búnir til.
En það eru fleiri drottningar í faginu þar sem hin ítalsk-ættaða Emily Delaney þykir einnig ansi fær en hana má einnig finna á Instagram undir nafninu Cheeseboardqueen.