Grænmetislasagnað sem börnin elskuðu

Girnilegt grænmetislasagne af bestu gerð, úr smiðju Hildar Rutar.
Girnilegt grænmetislasagne af bestu gerð, úr smiðju Hildar Rutar. mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir

Hér bjóðum við upp á ljúffengt grænmetislasagne úr smiðju Hildar Rutar, þar sem grasker og spínat eru að dansa saman – en það er ekki oft sem við sjáum „butternut squash“ í matargerð.

Butternut squash er sérstakt afbrigði af graskeri, sætt á bragðið og minnir á sæta kartöflu að sögn Hildar. Eins er það næringarríkt og inniheldur mikið af góðum trefjum og A-vítamíni.
„Ég gerði þetta ofur ljúffenga graskers- og spínatlasagna í vikunni og það sló rækilega í gegn hjá fjölskyldumeðlimum. Börnin mín sem eru 8 ára og 1 árs, elskuðu þetta,“ segir Hildur Rut.

Grænmetislasagne með leynihráefni (fyrir 4-6)

  • 1 butternut squash grasker, meðalstærð
  • 9-12 lasagnaplötur
  • 1 poki spínat
  • 1 laukur
  • 2-3 hvítlauksrif
  • 500 g kotasæla
  • 2 dl rifinn ferskur parmesan ostur
  • 3 dl mozzarella ostur
  • Ólífuolía
  • Salt og pipar
  • Cayenne pipar
  • Múskat

Aðferð:

  1. Leggið lasagna plöturnar í bleyti (vatn) í 20-30 mínútur. Þá mýkjast þær og óþarfi að sjóða plöturnar áður en þið búið til lasagna.
  2. Skerið graskerið í litla bita. Veltið því upp úr ólífuolíu og saltið og piprið. Dreifið því í eldfast mót og bakið í 25-30 mínútur við 190°C.
  3. Steikjið lauk upp úr ólífuolíu. Þegar hann er búinn að mýkjast þá bætið þið við spínati og pressið hvítlauksrifin út í. Hellið því næst kotasælunni og parmesan ostinum út í og kryddið með múskati, cayenne pipar, salti og pipar. Hrærið öllu vel saman á vægum hita.
  4. Stappið graskerið þegar það er tilbúið.
  5. Finnið til eldfast mót, ég notaði 28x28. Smyrjið ólífuolíu í botninn og setjið til skiptis lasagnaplötur, grasker og spínatblönduna. Þið ættuð að ná þremur lögum ef þið notið álíka stórt mót og í þessari uppskrift.
  6. Stráið rifnum osti yfir og bakið í 20 mínútur við 190°C. Gott að bera fram með hvítlauksbrauði eða fersku salati.
mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka