Nú skerum við niður sítrónusneiðar og setjum út í vatnið okkar. Það er ekki bara girnilegt á að líta, heldur lítið mál að græja, en umfram allt alveg meinhollt fyrir þig.
Húðin elskar sítrónuvatn
Mikið af þeim matvælum sem þú borðar inniheldur C-vítamín, sem er gott fyrir líkamann. En sítrónur eru stútfullar af vítamíninu. C-vítamín er á meðal þess sem hjálpar til við kollagenframleiðslu húðarinnar sem heldur henni mjúkri og spornar við hrukkumyndun.
Sítrónuvatn eykur brennsluna
Sítrónur eru bragðmiklar og innihalda fáar hitaeiningar. Þegar sítrusolían af berkinum og safinn frá „kjötinu“ kemst út í vatnið slokknar ekki einungis á þorstanum heldur kviknar á öllum skilningarvitunum. Sítrónuvatn getur minnkað þörfina fyrir sykraða drykki sem innihalda mikið af hitaeiningum og í raun eykst brennslan við að drekka sítrónuvatn.
Vondir siðir hverfa
Margir eiga erfitt með að greina á milli þess að vera þyrstir eða svangir. Ef maður er svangur þarf að sjálfsögðu að fóðra líkamann, en ef um ræðir millimál, sem við vitum að er ekkert annað en löngun í eitthvað sætt, skaltu allt eins fá þér sítrónuvatn. Prófaðu næst að drekka eitt glas af vatni með sítrónu og athugaðu hvort þú náir ekki að jafna líkamann. Sítrónusprengja er kannski líka það sem þú þarft til að venja þig af aukakaffibollanum sem þú drekkur nóg af yfir daginn.