Dýrðlegt rjómapasta með beikoni, skinku, sveppum og brokkólí

Ljósmynd/María Gomez

Hér erum við með uppskrift sem ætti að tikka í öll box þegar kemur að samkomubanns-fæði. Skilgreiningin er sú að fæðan verður að veita gleði, huggun, seddu og örlítið af kolvetnavímu.

Þessi uppskrift kemur frá Maríu Gomez á Paz.is - eða kleinudrottnngunni eins og hún er nú kölluð eftir að við birtum uppskriftina af Garðabæjarkleinunum hennar. Án þess að orðlengja neitt frekar um það þá virðist kleinubakstur vera það heitasta heitt hér á landi en meira um það síðar.

Sjálf segir María að það sé nauðsynlegt að hafa hvítlauksbrauð og parmesan með því sú þrenna sé hin heilaga þrenning í hennar huga.

„Þessi uppskrift er frekar stór en mjög einföld og gott er að hita hana upp daginn eftir ef það er afgangur þar að segja. Ef þú átt stóra fjölskyldu þá mun ekkert verða eftir," segir María um þennan dásemdarrétt.

Dýrðlegt rjómapasta með beikoni, skinku, sveppum og brokkólí

  • ½ dl ólífuolía
  • 15 gr. smjör
  • 200-250 gr. beikonstrimlar (svona kurl)
  • 200-250 gr. skinkustrimlar (kurl líka)
  • 150 gr. púrrulaukur
  • 1-2 stk. ramiro-paprika rauð
  • 250 gr. sveppir
  • 200 gr. ferskt broccoli
  • ½-1 dós skinkumyrja
  • 1 piparostur
  • 4 dl rjómi (má líka vera matreiðslujómi eða nýmjólk)
  • 2 pakkar Pastella-tortellini með skinku (fæst í kælinum í Bónus)
  • 1 tsk. borðsalt
  • 1 tsk. þurrkað timian (má sleppa)

Aðferð

  1. Byrjið á að hita olíu og smjör á pönnu.
  2. Skerið allt grænmeti niður í smátt og sveppina í skífur.
  3. Setjið piparost í blandarann og tætið hann niður (upp á að bráðna fyrr í sósunni)
  4. Steikið svo fyrst púrrulauk þar til hann er mjúkur, passið að brenna hann né brúna bara sjóða svona meira.
  5. Setjið næst sveppi og papriku út á og steikið vel saman (það kemur alveg soð og það er í lagi).
  6. Saltið og piprið (1 tsk borðsalt) og setjið þurrkað timian út í.
  7. Þegar grænmetið er mýkt þá má setja skinku og beikon út á það og hækka smá hitann á eldavélinni, steikið í gegn og hrærið í svo grænmetið brenni ekki.
  8. Setjið næst skinkumyrju og tætta piparostinn út í og látið það bráðna vel í grænmetinu og skinkunni í pottinum.
  9. Bætið svo rjóma út á og látið suðu koma upp og setjið þá brokkolí út í. Leyfið að sjóða yfir vægum hita meðan næsta skref er gert.
  10. Setjið nú vatn í annan pott og saltið mjög vel, nánast eins og sjóvatn.
  11. Þegar suðan kemur upp er pastað sett út í og soðið í 3 mínútur.
  12. Þegar pastað er til er vatninu hellt af og því blandað við rjómasósuna og hrært vel saman.
  13. Berið fram með hvítlauksbrauði og parmesan osti.
Ljósmynd/María Gomez
Ljósmynd/María Gomez
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka