Smálúða með ótrúlega góðu meðlæti

Ljósmynd/Sirrý í Salt eldhúsi

Þessi uppskrift er algjört æði. Hér erum við með fisk, nánar tiltekið smálúðu með ávöxtum. Trúið mér (og ef ekki mér þá Sirrý í Salt eldhúsi sem á heiðurinn að uppskriftinni) þegar ég segi ykkur að þetta er geggjuð samsetning.

„Segja má að það sé óvenjuleg samsetning að borða ávexti og fisk saman en hið ljúfa bragð af smálúðunni fer mjög vel með vínberjunum og rúsínum. Þetta er kannski svolítill óður til lúðusúpunnar hennar ömmu sem mér fannst góð. Rétturinn er mjög fljótlegur og tilvalinn gestaréttur. Ég ber yfirleitt kartöflur fram með en kús-kús, hrísgrjón eða brauð er líka gott. Þessi fiskréttur er óvenjulegur en okkar uppáhald,“ segir Sirrý um þennan rétt. 

Smálúða með vínberjum

  • Eitt stórt eða 2-4 stykki flökuð smálúða 700-800 g samtals
  • salt og pipar
  • ½ sítróna, safi af henni
  • 30 g smjör
  • 60 g ljósar rúsínur (fást í heilsubúðum) eða bara þessar dökku
  • 180 g ljós vínber skorin í tvennt
  • 2 msk. steinselja söxuð
  • 3 msk. balsamedik
  • 5 msk. marsalavín eða þurrt sjérrí
Aðferð:
  1. Hitið ofninn í 200°C. Smyrjið rúmgott form, sem rúmar flökin í einu lagi, með olíu og setjið fiskstykkin, með roðhliðina niður, í það.
  2. Kryddið með salti, pipar og sítrónusafa, setjið smjör ofan á í litlum klípum.
  3. Hrærið rúsínur, vínber, steinselju, balsamedik og vín í skál og dreifið blöndunni yfir fiskinn.
  4. Bakið þetta í 15-20 mín. bökunartíminn fer eftir þykkt fiskstykkjanna.
  5. Það kemur gott soð í mótið, vínið, edikið og soðið af vínberjunum og fiskinum.  

Rétturinn er fyrir 4 manns.

- - -

Fylgstu með Matarvefnum á Instagram og Facebook. Endalaus ævintýri, hugmyndir, skemmtilegir leikir og allt það heitasta heita...

Svo megið þið endilega tagga okkur á Instagram þegar þið eruð að elda eitthvað spennandi @matur.a.mbl.

Ljósmynd/Sirrý í Salt eldhúsi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka