Í dag er ekta veður til að bjóða upp á góðan karrýfiskrétt sem krakkarnir elska. Það er nefnilega eitthvað við karrý sem allir elska og því er þetta einn af þessum réttum sem geta ekki klikkað.
Það er Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessari snilld eins og hennar er von og vísa.
Krakkavænn karrýfiskur
Fyrir 4-5 manns
- 800 g þorskhnakkar
- 30 g smjör
- ½ laukur
- 1 msk. karrý
- Salt, pipar, cheyenne-pipar eftir smekk
- 1 msk. fiski- eða humarkraftur
- 500 ml rjómi frá Gott í matinn
- 100 ml súrmjólk
- Maizena-mjöl
- Rifinn gratínostur frá Gott í matinn
Aðferð:
- Hitið ofninn í 180°C.
- Skolið og þerrið fiskinn, skerið hnakkana í 2-3 cm bita og raðið í botninn á eldföstu móti, kryddið með salti og pipar.
- Saxið laukinn mjög smátt (þannig finna börn ekki fyrir því það sé laukur en hann gefur svo gott bragð í réttinn).
- Steikið laukinn upp úr smjörinu við meðalhita þar til hann mýkist og kryddið með karrý, salt og pipar.
- Bætið þá rjóma, krafti og súrmjólk á pönnuna, náið upp suðunni og þykkið með maizena-mjöli.
- Kryddið til með cheyenne-pipar, salti, pipar og krafti eftir smekk.
- Hellið yfir fiskinn í fatinu, setjið vel af rifnum gratínosti yfir og bakið í um 30 mínútur.
- Gott er að bera fiskinn fram með soðnum hrísgrjónum.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir