Geggjað kjúklingasalat með chili og hunangi

Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir

Það er engin önnur en Helena Gunnars hjá Eldhúsperlum Helenu sem á heiðurinn af þessu snilldarsalati sem hún segir að sé ótrúlega bragðgott og sumarlegt. Svo sé algjörlega málið að grilla kjúklinginn til að toppa stemninguna.

„Til að gera salatið ketó/LKL-vænt má vel skipta hunanginu út fyrir sykurlaust síróp og skipta brauðteningunum út fyrir t.d. ristaðar pekanhnetur, og svo annaðhvort sleppa mangóinu eða minnka það," segir Helena um þetta dásemdarsalat.

Geggjað kjúklingasalat með chili og hunangi

Marinering og sósa:

  • ½ dl hunang
  • ½ dl dijonsinnep
  • ½ dl ólífuolía
  • 2-3 tsk. chilimauk (t.d. sambal oelek) eða 1 rauður hakkaður chilli
  • 1 tsk. sjávarsalt
  • safi úr einni límónu
  • 2 kjúklingabringur

Brauðteningar

  • 2 vænar sneiðar súrdeigsbrauð
  • 3 msk. smjör og 1 msk ólífuolía
  • salt og pipar

Salat

  • Einn poki salatblanda eða annað salat eftir smekk 
  • 1 mangó
  • 1 lárpera
  • kirsuberjatómatar
  • fetaostur

Aðferð

  1. Pískið saman allt sem fer í marineringuna. Leggið kjúklingabringurnar á disk, takið fjórar matskeiðar af sósunni og hellið yfir þær. Látið marinerast í ísskáp í 2 klst eða á borði í 30 mínútur.  Geymið afganginn af sósunni til að hella yfir salatið.
  2. Rífið brauðið í litla teninga. Bræðið smjörið á pönnu og hitið ásamt ólífuolíunni. Steikið brauðteningana þar til stökkir og kryddið með salti og pipar. Færið yfir á disk með eldhúspappír og látið bíða. 
  3. Steikið eða grillið kjúklingabringurnar þar til eldaðar í gegn. Skerið allt sem á að fara í salatið niður og leggið á stórt fat. Sneiðið að lokum kjúklinginn í þunnar sneiðar, dreifið brauðteningunum yfir ásamt fetaosti og hellið sósu eftir smekk yfir allt saman. Berið fram strax. 
Ljósmynd/Helena Gunnarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert