Hættulega góð súkkulaði & lakkrís Omnom Krunch brúnka

Hættulega góðar brúnkur að sögn Snorra.
Hættulega góðar brúnkur að sögn Snorra. mbl.is/Snorri Guðmundsson

Þessar súkkulaðikökur eru þannig gerðar að þú hættir ekki að borða fyrr en allt er búið! En þessi stórkostlega uppskrift kemur úr smiðju Snorra hjá Matur og myndir.

Ef þú elskar lakkrís súkkulaðið frá Omnom þá er þetta brúnku uppskrift fyrir þig! Hér nota ég gömlu góðu brúnku uppskriftina mína sem er búin að sanna sig í gegnum árin en bæti út í hana krömdu Omnom lakkrís crunch, en það gefur henni þetta frábæra lakkríssúkkulaði bragð og skemmtilega áferð. Alveg hættulega gott!

Hættulega góð súkkulaði & lakkrís Omnom Krunch brúnka

  • Smjör, 115 g
  • Kakóduft, 50 g
  • Sykur, 125 g
  • Púðursykur, 125 g
  • Vanilludropar, 1 tsk
  • Egg, 2 stk
  • Salt, 1/4 tsk
  • Hveiti, 60 g
  • Lakkrís Omnom Krunch, 1 poki
  • Súkkulaðibitar, 1 dl (75 g) / T.d. Ghirardelli eða Kirkland

Aðferð:

  1. Hitið ofn í 180°C.
  2. Smyrjið 20 cm brúnkuform með smjöri og leggið bökunarpappír í formið svo auðveldara sé að ná kökunni upp úr því.
  3. Bræðið smjörið og pískið því vandlega saman við kakóduft, sykur, púðursykur og vanilludropa. Pískið svo 1 eggi í einu saman við blönduna þar til áferðin er orðin slétt.
  4. Hrærið hveiti og salti saman við blönduna þar til allt hefur samlagast.
  5. Setjið lakkrís Omnom Krunch í poka og berjið það með t.d. kökukefli þar til allar kúlurnar eru brotnar.
  6. Blandið súkkulaðibitum og brotnu Omnom Krunch saman við blönduna og hellið henni svo í brúnkuformið.
  7. Bakið kökuna í um 22 mín í miðjum ofni eða þar til tannstöngull kemur nánast hreinn úr miðju kökunnar.
  8. Leyfið brúnkunni að kólna áður en hún er fjarlægð úr forminu og skorin í bita. Mér þykir best að setja kökuna aðeins inn í ísskáp áður en ég sker hana, en þá er auðveldara að skera hana í fallega bita.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka