Fiskborgarar eru matur sem er stórlega vanmetinn og við hvetjum ykkur svo sannarlega til að prófa. Þessi uppskrift er frá henni Gígju S. Guðjóns en hún segir að uppskriftin hafi slegið í gegn á hennar heimili.
„Prófaði að skella í fiskborgara og viti menn, hann sló heldur betur í gegn, æðislega ferskur og góður. Fiskurinn stökkur að utan og mjúkur að innan. Í brioche-hamborgarabrauði með æðislegu rjómaostskremi,“ segir Gígja um réttinn.
Stökkur fiskborgari í brioche-brauði með rjómaostskremi
Uppskrift fyrir 4
Innihald sósu:
- 1 rjómaostur með graslauk og lauk frá Gott í matinn
- safi úr 1/4 sítrónu
- salt og pipar eftir smekk
- 2 pressuð hvítlauksrif
Aðferð sósu:
- Öllu hrært saman, fínt að byrja á því að gera sósuna/kremið og leyfa því að standa aðeins.
Innihald borgari:
- 4 bitar þorskur um 200 g hver
- 4 brioche-hamborgarabrauð
- 1/2 bolli hveiti
- 2 egg (pískuð saman)
- 1 bolli brauðraspur
- salt og pipar eftir smekk
- 1 tsk paprikukrydd
- 1/2 tsk cayennepipar
- salatblöð
- fínt skorinn rauðlaukur
- sítróna
Aðferð borgari:
- Hitið ofninn í 200 gráður blástur
- Hitið vel af olíu á pönnu við miðlungshita, olían þarf að ná eins og 1/2 cm upp í pönnuna
- Setjið egg, brauðrasp og hveiti hvað í sína skálina og bætið kryddinu út í hveitið
- Fiskinum er þá velt upp úr hveitinu, dýft í eggin og síðast velt upp úr brauðraspinum
- Fiskurinn er steikur á sitthvori hliðinni í 3 mínútur þar til skorpan er orðin brúnleit, þá er fiskurinn færður inn í ofn í 5 mínútur
- Þegar 1-2 mínútur eru eftir eru brauðin sett inn og hituð
- Um leið og fiskurinn kemur úr ofninum er sítrónusafi kreistur yfir
- Rjómaostskreminu er smurt inn í bæði brauðin áður en fiskur, salat og rauðlaukur fer á