Fyrsta svartbotna pítsa Íslands fæst á Ölverk

Fyrsta svartbotna pítsa Íslands er fáanleg hjá Ölverk í Hveragerði.
Fyrsta svartbotna pítsa Íslands er fáanleg hjá Ölverk í Hveragerði. Mbl.is/Ölverk

Skynfærum viðskiptavina á Ölverk í Hveragerði býðst nú í október að fara í rússíbanaferð - en í fyrsta sinn á Íslandi, verður þar fáanlega pizza með kolsvörtum pizzabotni.

Nýverið sögðum við frá því að Ölverk væri að selja bjórkaktusa og í september buðu þeir upp á sterkustu pítsu Íslands sem fékk ótrúleg viðbrögð gesta. Það kemur því alls ekki á óvart að þeir fari alla leið í sjálfum Hrekkjavöku-mánuðinum og kynni til leiks svartbotna pítsu. Við náðum tali af Laufeyju Sif, einn eiganda Ölverk sem var afar spennt fyrir pítsunni, (og við líka).

„Það er alveg óhætt að segja að við Elvar, maðurinn minn, höfum verið óhrædd við að bjóða gestum okkar upp á hinar ýmsu nýjungar í gegnum tíðina, sumar hverjar hafa fallið vel i kramið á meðan aðrar hafa verið umdeildar. Áhugamál okkar Elvars snúast að miklu leyti um matargerð og hinar ýmsu matarupplifanir. Þegar við erum ekki að vinna á Ölverk þá erum við heima að spá og spekulera í stefnum og straumum í matvælagerð - þó svo að aðaláherslan okkar á Ölverk sé auðvitað pítsugerð“, segir Laufey.

Pítsa mánaðarins er „spooky“
Laufey segir að Elvar sé alræmdur matgæðingur og hafi náttúrulega hæfileika í því að para saman ólík brögð á meðan hún sjálf haldi sig meira í hugmynda- og smakkdeildinni. „Allar nýjar pítsur og bjórar frá okkur verða til með skemmtilegri samvinnu en við erum stöðugt í vöruþróun bæði í pítsu- og bjórgerðinni. Stundum fæ ég einhverja hrikalega skrítna hugmynd að pítsu sem Elvar tekur áfram, finnur hvað passar með hverju, pússar til – og úr verða þessar eftirminnilegu og ljúffengu eldbökuðu pítsur“, segir Laufey.

Þar sem Ölverk býður gestum sínum reglulega upp á óhefðbundnar pítsur, þá mun pítsa október mánaðar án efa hrista upp í þeim sem eru til í að ögra skynfærunum og prófa eitthvað nýtt. Að þessu sinni er pítsan með svörtum pizzubotni; sósu, osti, rifnu confit andalæri, gráðosti, bjórfíkjusultu, valhnetum, steinselju og nýmöluðum svörtum pipar. Að lokum er olía pensluð á kant pítsunnar sem undirstrikar svartan og dulúðlegan tón hennar.

„Pítsa mánaðarins að þessu sinni er sérstaklega „spooky “ svona í tilefni að haustjafndægrum og Halloween, og vonumst  við til þess að hún falli vel í kramið hjá nýjungagjörnum pítsuaðdáðendum landsins. Það er svo ótrúlega fyndin upplifun hafa pítsu sem þessa fyrir framan sig og hugurinn öskrar á þig, að þér geti bara ekki verið alvara með því að borða þessa „brenndu“ svörtu pítsu sem lyktar samt svona unaðaslega og bragðast frábærlega“, segir Laufey og hefur sannarlega kveikt í áhuga okkar.

Þeir sem vilja krydda upp á kvöldmatinn með fjölskyldunni (og þora í eitthvað nýtt) – ættu að renna við austur fyrir fjall hjá Ölverk, og smakka fyrstu svartbotna pítsu Íslands sem verður eingöngu fáanleg út þennan mánuðinn.

Við mælum með að renna austur fyrir fjall hjá þeim …
Við mælum með að renna austur fyrir fjall hjá þeim heiðurshjónum, Laufeyju og Elvari sem standa vaktina á Ölverk og selja eldbakaðar pítsur og handverskbjór af bestu gerð. Mbl.is/Ölverk
Mbl.is/Ölverk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka