Súrdeigspítsa með ítalskri salsiccia, rósmaríni og chilihunangi

Súrdeigspítsa eins og hún gerist best.
Súrdeigspítsa eins og hún gerist best. Mbl.is/Snorri Guðmundsson

Ef einhver er góður í pítsugerð, þá er það Snorri Guðmunds hjá Mat og myndum. Hér býður hann okkur upp á súrdeigspítsu með ítalskri salsiccia, rósmaríni og chilihunangi. Nammi!

Súrdeigspítsa að hætti Snorra (fyrir 4)

  • súrdeigspítsudeig, 2x 300 g / t.d. frá Brikk-bakaríi
  • salsicci-grillpylsa, 200 g / fæst frosin frá Tariello í Hagkaup, Krónunni og Melabúðinni
  • pítsusósa, 200 ml
  • mozzarella rifinn, 250 g
  • rauðlaukur, 1 lítill
  • rósmarín ferskt, 1 stilkur
  • klettasalat, 25 g
  • parmesan, eftir smekk

Chilihunang - eftir smekk

  • hunang, 150 ml
  • rautt chili, 15 g
  • hvítlaukur, 1/2 lítið rif

Aðferð:

  1. Takið pítsudeigið úr kæli 2 klst fyrir eldun.
  2. Skerið utan af salsiccia-pylsunum og losið kjötið í sundur. Steikið á heitri pönnu þar til fulleldað. Geymið á disk til hliðar
  3. Stillið ofninn á hæsta hita (á pítsustillingu ef það er í boði).
  4. Sneiðið rauðlauk í þunnar sneiðar eftir smekk. Saxið rósmarín gróflega.
  5. Setjið bökunarplötu inn í ofn svo hún hitni vel á meðan unnið er í botninum. Hafið bökunarpappír kláran til að leggja deigið á.
  6. Setjið smá hveiti á hendurnar og notið þær til þess að fletja botninn út í um 28 cm hring. Best er að vinna út frá miðju deigsins í átt að kantinum og reyna að hlífa um 2 cm af kantinum við sem mestu hnjaski. Þannig er gasinu í deiginu ýtt út í kantinn sem verður til þess að hann lyftist betur.
  7. Raðið sósu, salsiccia, osti, rósmaríni og rauðlauk á pítsuna.
  8. Takið heita ofnplötuna úr ofninum (farið varlega) og dragið pítsuna á ofnpappírnum á heita plötuna. Bakið í neðstu grind í ofni í 12-15 mín eða þar til pítsan er orðin fallega gyllt.
  9. Toppið pítsuna með klettasalati, rifnum parmesan og chilihunangi eftir smekk.

Chilihunang

  1. Sneiðið chili í þunnar sneiðar og pressið eða rífið hvítlaukinn.
  2. Setjið allt hráefnið saman í lítinn pott og stillið á miðlungshita.
  3. Hrærið við og við í blöndunni þar til hunangið er við það að fara að sjóða og lækkið þá hitann í lægstu stillingu og látið vera í um 20 mín.
  4. Látið kólna í nokkrar mín. og færið hunangið svo yfir í flösku eða krukku.
  5. Geymið við stofuhita í tvær vikur eða í ísskáp í allt að mánuð en takið þá úr kæli og látið ná stofuhita fyrir notkun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka