Við fengum Sjöfn Þórðardóttir fjölmiðlakonu og stjórnanda þáttarins Matur & heimili á sjónvarpsmiðlinum Hringbraut til að deila með okkur sinni uppáhaldsuppskrift. Sjöfn er mikill matgæðingur og ástríðukokkur og veit fátt skemmtilegra en að bjóða sínum nánustu til matarveislu.
„Ég nýt mín í botn í eldhúsinu við að undirbúa ljúffengan mat og kræsingar fyrir mína nánustu og gesti. Þegar kemur að matargerð og bakstri legg ég mikið upp úr því að framreiða matinn á fallegan hátt og aðrar kræsingar enda borðum við flestöll fyrst með augunum, svo með munninum. Ég dekka til að mynda ávallt upp fallegt borð og skreyti á einfaldan og stílhreinan hátt í stíl við árstíðirnar hverju sinni, til dæmis með lifandi blómum og huggulegu kertaljósi. Þegar ég held matarboð fer ég alla leið og vil hafa alla umgjörðina aðlaðandi,“ segir Sjöfn.
„Mitt uppáhald þessa dagana er Confit de Canard eða andalæri á franska vísu með asísku yfirbragði. Ég á marga uppáhaldsrétti en þetta er réttur sem mér finnst einstaklega gaman að bjóða upp á þessa dagana. Ég kaupi andalærin í niðursuðudós sem eru yfirleitt frá Frakklandi en upprunni réttarins er þaðan. Sem meðlæti með andalærinu er ég með sellerírótarmús, asian fusion-sósu að hætti Sigrúnar Margrétar systur minnar sem er snillingur í sósugerð og koníakskaramelluð epli. Þetta er hin fullkomna samsetning með andalærinu og bráðnar í munni. Stundum býð ég upp á edamamebaunir sem meðlæti til hliðar. Njótið vel!“ segir Sjöfn að lokum.
Confit de Canard
- 1 dós andalæri (4-5 læri í dós)
Bragðbætir og til skrauts á andalærin
- 4-5 greinar timían
- brúðarslör eða ætisblóm eins og skjaldflétta
Aðferð:
- Byrjið á því að hita ofninn í 180°gráður án blásturs. Takið andalærin upp úr niðursuðudósinni og andafitunni. Takið sem minnst af henni með. Setjið lærin í steikarfat eða eldfast mót og bakið í ofninum í 30 til 40 mínútur eða þar til þau verða gullinbrún á litinn. Þau eru mun girnilegri og fallegri með gullinbrúnum lit.
- Vert er að útbúa meðlætið á meðan öndin er að eldast í ofninum. Þetta snýst um að hita öndina upp og brúna en hún er fullelduð í niðursuðudósinni. Upplagt er að taka andafituna frá og eiga hana í matargerð, til dæmis er mjög gott að steikja upp úr fitunni kartöflur. Stundum er ég með nýtt smælki og nýti þá fituna til steikingar á smælkinu.
Asian fusion-sósa
- 2 stk. chilipipar saxaður (rauður chilipipar)
- 3 litlir hvítlaukar saxaðir (eða 5 hvítlauksrif)
- 1 msk. röspuð engiferrót
- 2-3 tsk. andakraftur
- 1-2 dl vatn
- 1 dós kókosmjólk
- hálf flaska hoisinsósa
- 2-3 msk. hlynsíróp
- ólífuolía og íslenskt smjör til að steikja upp úr
Aðferð:
- Byrjið á því að bræða saman klípu af smjöri og ólífuolíu. Saxið hvítlauk og chilipipar og raspið engiferrótina. Steikið saxaðan hvítlauk, chilipipar og engiferrót upp úr smjör- og olíublöndu þar til þetta verður mjúkt. Bætið þá við 2-3 teskeiðum af andakrafti ásamt hálfum bolla af vatni. Látið krauma í svolitla stund. Því næst bætið þið við kókosmjólk, hoisinsósu og sírópi og látið malla í dágóða stund. Má krydda með pipar eftir smekk.
- Ef þið viljið meira magn, eða viljið þynna sósuna, er hægt að bæta við soðnu vatni, kókosmjólk, jafnvel örlítið meira af hoisinsósu.
Sellerírótarmús
- 1 stk. sellerírót, afhýdd og skorin í teninga
- 2 stk. laukar, smátt saxaðir
- ólífuolía
- gróft salt (ég nota himalajasaltflögur)
- hvítur pipar eftir smekk
- 2 dl rjómi
Aðferð:
- Afhýðið sellerírótina og skerið í teninga. Afhýðið laukana og saxið. Steikið teningana og laukinn upp úr smá ólífuolíu á pönnu og kryddið til með grófu salti og hvítum pipar. Hellið rjómanum út á og sjóðið þar til sellerírótin er orðin mjúk. Bætið meiri rjóma saman við ef ykkur finnst þurfa. Setjið blönduna síðan í matvinnsluvél og maukið. Músin á að vera meðalþykk og með fallegri áferð. Smakkið til með salti og pipar.
Sælkeraepli
- 2 stk meðalstór græn epli
- 2 msk. sykur
- 2 tsk. kanill
- skvetta af koníaki – eftir smekk
- íslenskt smjör og/eða ólífuolía til steikingar
Aðferð:
- Byrjið á því að flysja eplin og skera í báta. Gott er að nota svokallaðan eplaskera, þá fáið þið jafna og fallega bita. Steikið bitana upp úr smjöri/ólífuolíu. Setjið sykur og kanil saman við, gott að blanda sykri og kanil saman og búa til kanilsykur og sáldra síðan yfir eplin og toppa með koníaksskvettu. Látið steikjast þar til eplin fá karamelliseraðan brúnan lit og áferð. Það má sleppa koníakinu.
Edamamebaunir með chili og hvítlauk
- 1 poki frosnar edamamebaunir (yfirleitt 500 g)
- 3-4 hvítlauksrif smátt söxuð
- 2 stk. ferskur chilipipar saxaður
- 2 tsk. svartur pipar úr kvörn
- 2 tsk. chilikrydd
- grófar himalajasaltflögur eftir smekk
- ólífuolía til steikingar
Aðferð:
- Byrjið á því að setja vatn í pott og sjóða. Þegar suðan er komin upp, hellið þá baununum í vatnið og stráið örlitlum saltflögum yfir og látið sjóða í um það bil þrjár mínútur.
- Hellið vatninu af baununum í gegnum sigti. Hitið pönnu með ólífuolíu á góðum hita. Þegar ólífuolían er orðin heit, setjið þá saxaðan hvítlauk og chilipipar út í olíuna og steikið þar til mjúkir. Bætið þá baununum við og leyfið þeim að malla aðeins saman við.
- Kryddið í lokin með chilikryddi, svörtum pipar og grófum himalajasaltflögum.
Andalæri á franska vísu með asísku yfirbragði er í uppáhaldi hjá Sjöfn.
Mynd: Aðsend
Veisluborð að hætti Sjafnar - sem nostrar jafnt við matinn sem og framreiðsluna á honum við borðið.
Mynd: Aðsend