Himneskar kjötbollur með spaghetti

Frábær fjölskylduréttur sem allir munu elska.
Frábær fjölskylduréttur sem allir munu elska. mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir

Hér eru ofnbakaðar kjötbollur með spaghetti – sem eru hreint út sagt himneskar. Fullkominn fjölskylduréttur á hvaða vikudegi sem er, því þessa dagana gerum við vel við okkur. Uppskriftin kemur frá Hildi Rut sem segir réttinn vera ekta „comfort food“.

„Punkturinn yfir i-ið er að setja pestó með sólþurrkuðum tómötum í kjötbollurnar. Nammi! Við á heimilinu elskum svona rétti, sérstaklega þegar maður er svona mikið heima. Mér finnst frábært að elda ríflegan skammt og eiga í hádegismat daginn eftir. Þessi uppskrift hentar vel í tvær máltíðir fyrir tvo fullorðna og tvö börn,“ segir Hildur Rut.

Himneskar kjötbollur með spaghetti

  • 800 g nautahakk
  • ½ krukka pestó með sólþurrkuðum tómötum frá Filippo berio
  • 1 dl kotasæla
  • 1 dl parmigiano reggiano, rifinn
  • 1 egg
  • 2 hvítlauksrif
  • 1 tsk óreganó
  • salt & pipar
  • ólífuolía
  • Ferskur mozzarella
  • spaghetti frá De Cecco
  • fersk basilíka

Sósa

  • Hunts-tómatsósa í dós
  • 1-2 hvítlauksrif
  • 1 dl parmigano reggiano
  • 2 msk Philadelphia rjómaostur
  • salt & pipar

Aðferð:

  1. Byrjið á því að blanda saman nautahakki, pestó, kotasælu, parmigiano reggiano, eggi, pressuðu hvítlauksrifi, óregano, salti og pipar í skál. Hnoðið öllu saman með höndunum eða notið hrærivél.
  2. Mótið kjötbollurnar með matskeið þannig að þær verði allar svipaðar að stærð.
  3. Dreifið bollunum í eldfast form klætt með bökunarpappír.
  4. Dreifið ólífuolíu yfir þær og bakið í 20-25 mín við 190°C, eða þar til bollurnar eru eldaðar í gegn.
  5. Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum og útbúið sósuna á meðan kjötbollurnar eru að bakast.
  6. Sósan: Hrærið saman tómatsósu, pressuðu hvítlauksrifi, parmigiano reggiano, rjómaosti, salti og pipar í potti við vægan hita.
  7. Dreifið spaghetti í eldfast mót. Dreifið því næst kjötbollunum ofan á og hellið sósunni yfir.
  8. Rífið ferskan mozzarella og dreifið yfir og bakið í ofni í 5-7 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður.
  9. Berið fram með ferskri basiliku og parmigiano reggiano.
mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka