Hannar kaffibolla úr eldfjallaösku

Guðbjörg Káradóttir er keramíkhönnuður og hannar undir nafninu KER.
Guðbjörg Káradóttir er keramíkhönnuður og hannar undir nafninu KER. mbl.is/Rakel Sigurðardóttir

Þeir eru umtalaðir kaffibollarnir frá Guðbjörgu Káradóttur sem hannar undir nafninu KER. En bollarnir eru ekki bara guðdómlega fallegir, því þeir eru einstaklega þægilegir í hendi.

Guðbjörg hefur starfað sem keramíkhönnuður frá útskrift úr Myndlista- og handíðaskólanum, með hléum, frá árinu 1994. Hún handrennir öll sín verk, og hefur auk þess þróað aðferð við að blanda póstulíni við eldfjallaösku – en Guðbjörg vinnur aðallega með póstulín og steinleir.

Við náðum tali af Guðbjörgu sem hefur vart undan þessa dagana að handrenna jólatré á vinnustofu sinni í Hlíðunum. Það er einstaklega skemmtilegt að sækja þennan listræna keramíker heim og skyggnast inn í þá ævintýraveröld sem hún skapar. En frá látlausri vinnustofu, gerast stórir hlutir – því Guðbjörg hefur hannað vörur fyrir stærri veitingahús hérlendis ásamt því að selja vörur sína í einni flottustu hönnunarverslun Danmerkur, Paustian.

Það ganga sögur um að þú framleiðir smekklegustu og bestu kaffibollana hér á landi – hvað geturðu sagt okkur um bollana: 
Vá, ég þakka fyrir það. Ég handrenni hvern einasta hlut þannig að hver bolli er einstakur. Lavala bollarnir eru sambland af postulíni og eldfjallaösku sem gerir áferðina mjög áhugaverða og bollana þægilega að halda á. Formið er frekar einfalt en þeir fara vel í hendi og koma í þremur stærðum eftir því hvernig kaffi maður kýs, espresso, americano og Latte eða Capuccino. 

Hvað er skemmtilegast að renna á bekknum? 
Mér finnst skemmtilegast að renna mjög stóra hluti. Svo hef ég gaman að því að renna marga hluti og setja mér markmið sem ég næ að klára. Rennsla er hálfgerð hugleiðsla fyrir mig og ég fæ aldrei leið á því að renna. 

Hefur þú gert matarstell úr keramík? 
Já, nokkrum sinnum í gegnum í tíðina og það er nýtt matarstell í bígerð. Svo hef ég gert matarstell fyrir fjölda veitingastaða svo sem Dill, Skál, Matbar og Yuzu. 

Ertu komin í jólaskap?
Já, ég byrja eiginlega mjög snemma í jólaskapi þar sem ég byrja snemma að renna jólatrén mín. Þannig að þá má eiginlega segja að ég sé nokkra mánuði í jólaskapi á hverju ári. 

Hvaðan kemur hugmyndin að litlu jólatrjánum sem fólk flykkist að til að kaupa ár hvert fyrir jólin? 
Hugmyndin varð til árið 2012. Þá starfaði ég með Ólöfu Jakobínu Ernudóttur í hönnunartvíeikinu Postulínu. Ég var að renna pendúla sem eru hálfgert jólakraut og í kjölfarið spratt upp sú hugmynd okkar á milli að renna jólatré. Þau hafa síðan verið í þróun í nokkur ár.

Gaman að segja frá því að þessir pendúlar urðu annarsvegar að jólatrjánum og hinsvegar að verki sem sýnt varí Harbinger galleríi og á hönnunarvikunni í Stokkhólmi árið 2015. Það verk samanstóð af 1.000 litlum pendúlum sem héngu úr loftinu og mynduðu einhverskonar kyrra snjókomu. 

Hvar er hægt að nálgast vörurnar þínar? 
Ég er með opið á vinnustofunni minni í Mávahlíð 16, alla daga fyrir jólin. Auk þess erum við með vefverslunina kerrvk.is. Eins sel ég vörurnar í Haf Store og í Paustian í Kaupmannahöfn. 

Vinsælustu bollar landsins eru framleiddir úr eldfjallaösku.
Vinsælustu bollar landsins eru framleiddir úr eldfjallaösku. Mbl.is/KER
Jólatrén hennar Guðbjargar hafa verið vinsæl síðustu misserin og fólk …
Jólatrén hennar Guðbjargar hafa verið vinsæl síðustu misserin og fólk bætir í safnið ár hvert. Mbl.is/KER
Fallegur blómavasi frá KER.
Fallegur blómavasi frá KER. Mbl.is/KER
Kertastjakarnir koma í nokkrum stærðum og má raða saman ef …
Kertastjakarnir koma í nokkrum stærðum og má raða saman ef vill. Mbl.is/KER
Mbl.is/KER
Jólatrén koma í svörtu, hvítu og gráu - hvert öðru …
Jólatrén koma í svörtu, hvítu og gráu - hvert öðru skemmtilegra. Mbl.is/KER
Mbl.is/KER
Guðbjörg handrennir hvern einn og einasta hlut sem framleiddur er …
Guðbjörg handrennir hvern einn og einasta hlut sem framleiddur er á vinnustofunni í Mávahlíð. Mbl.is/KER
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka