Kókosbollukökurnar sem eru að gera allt vitlaust

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Ef þú bakar bara eina köku um ævina þá skal það vera þessi. Þetta er löggild GMG-kaka en fyrir þá sem eru ekki sleipir í slíku tungutaki þá þýðir það GUÐ-MINN-GÓÐUR.

Flóknara er það ekki.

Meistari Berglind Hreiðars á Gotteri.is á þessa tímamótasnilld. Takk!

Kókosbollubollakökur

Athugið að gott er að setja pappaform ofan í álform til þess að kökurnar haldi fallegri lögun og auðveldara sé að fylla formin. Í þessari uppskrift má fylla um ¾ af forminu þar sem kremið er mikið og gott að hafa kökuna eins stóra og mögulegt er.

Bollakökur

  • 1 x Betty Crocker Devils Food Cake Mix
  • 4 egg
  • 125 ml matarolía
  • 250 ml vatn
  • 3 msk. bökunarkakó
  • 100 g brætt suðusúkkulaði

Hitið ofninn í 160°C og takið til bollakökuform.

Hrærið saman eggjum, olíu og vatni.

Bætið kökudufti og bökunarkakói saman við og hrærið í nokkrar mínútur.

Að lokum fer brædda súkkulaðið í blönduna og henni síðan skipt niður í um 20 bollakökuform.

Kælið kökurnar og útbúið síðan kremið.

Kókosbollukrem

  • 6 eggjahvítur
  • 500 g sykur
  • 100 ml vatn
  • 1 tsk. Cream of tartar
  • 1 msk. vanilludropar

Pískið saman eggjahvítur, sykur, vatn og Cream of tartar í skál.

Setjið skálina yfir pott með sjóðandi vatni og hrærið í þar til þið finnið að sykurinn er orðinn uppleystur og blandan orðin volg, færið hana þá yfir í hrærivélarskálina (eða þeytið með handþeytara).

Þeytið á hæsta hraða þar til stífir toppar myndast (10-12 mínútur í hrærivél).

Bætið vanilludropunum saman við í lokin og þeytið í um eina mínútu til viðbótar.

Setjið kremið í stóran hringlaga sprautustút og sprautið eins ísmunstri ofan á hverja köku (um þrír hringir).

Stingið kökunum í frysti í 15-30 mínútur og dýfið þeim síðan í súkkulaði.

Hjúpur

  1. 500 g suðusúkkulaði
  2. 3 msk. ljós matarolía

Bræðið súkkulaði og hrærið matarolíu síðan vel saman við til að þynna aðeins.

Setjið súkkulaðiblönduna í grannt og djúpt ílát (þó þannig að höndin ykkar og kakan komist að).

Sækið eina og eina köku í frystinn og dýfið eins og þið séuð að setja ídýfu á ís.

Haldið á hvolfi á meðan súkkulaðið lekur af og snúið síðan upprétt og leggið á disk.

Mikilvægt er að geyma kökurnar í kæli þar til þær eru borðaðar.

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert