Eitt flottasta eldhús landsins er í Hvassaleiti

Grænt og glæsilegt heima hjá Hildi og Hreiðari, sem tóku …
Grænt og glæsilegt heima hjá Hildi og Hreiðari, sem tóku eldhúsið algjörlega í gegn. Mbl.is/Aðsend

Við erum stödd í póstnúmeri 103, þar sem einstaklega fallegt eldhús vakti áhuga okkar – en það er grænt og glæsilegt og á engan sinn líka. Hér búa Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og umhverfisfræðingur og fasteignasalinn Hreiðar Levý Guðmundsson, ásamt fjórum börnum. Hildur er í fæðingarorlofi þessa dagana og stendur í endalausri tilraunastarfsemi með heimilið að eigin sögn, þá iðulega með málningapensil eða sög í hendi.

Þegar Hildur og Hreiðar festu kaup á raðhúsinu var það búið að vera í útleigu í nokkur ár. Eldhúsið var komið til ára sinna og hafði m.a. verið notað undir bruggstarfsemi – og farið að láta verulega á sjá. Það lá því í augum uppi að þau yrðu að endurnýja það.

Eldhúsið opið með góðu vinnuplássi

„Við byrjuðum á því að rífa eldhúsið og opna rýmið með því að fjarlægja tvo veggi. Að því loknu létum við fræsa fyrir gólfhita, pússa veggi og parketleggja með eikarparketi í fiskibeinamynstri. Þá var hægt að setja upp innréttingarnar og svo hófst biðin langa eftir borðplötum,“ segir Hildur.

„Við ákváðum strax að stækka eldhúsið nokkuð og hafa það opið inn í stofurýmin með stórri eyju, með því varð eldhúsið að hjarta heimilisins. Við vildum ekki hafa vask eða hellur á eyjunni, heldur að hún yrði laus við allt slíkt. Þannig nýtist hún bæði sem vinnupláss og það er hægt að sitja við hana án þess að lenda í gusum. Í skotinu, þar sem gamla eldhúsið var að hluta til áður, setti ég lága skápa sem mynda bekk sem hægt er að sitja á. Á móti bekknum á að koma vínkælir og opnar hillur fyrir glös og slíkt, við eigum þó eftir að finna rétta vínkælinn og demba okkur í það verkefni,“ segir Hildur.

Var byrjuð að hanna eldhúsið áður en þau keyptu

Hildur starfar sem skipulagsfulltrúi Faxaflóahafnar og sér um skipulagsmál hafnarinnar  því vön að sjá hlutina fyrir sér, enda arkitekt að mennt. „Ég byrjaði örugglega að skipuleggja og teikna eldhúsið áður en kauptilboðið okkar var samþykkt. Ég var fljót að ákveða nokkurn veginn hvernig ég vildi hafa það, þótt ég hafi velt einstaka útfærsluatriðum lengur fyrir mér. Ég mæli óhikað með að fá fagfólk í að hanna eldhús, þetta eru dýr rými og sorglegt að sjá þegar skipulagi eða hönnun er klúðrað. Það getur verið dýrt spaug að lagfæra,“ segir Hildur.

Innréttingin úr endurunnum plastflöskum

Hildur valdi IKEA-innréttingar í eldhúsið, það var hennar fyrsta val vegna þess hversu þægilegt er að vinna með innréttingarnar, þær bjóða upp á mikla möguleika og auðvelt er að breyta þeim án mikils tilkostnaðar. „Ég þurfti hins vegar að sannfæra manninn minn og við skoðuðum allar innréttingar bæjarins áður en IKEA-innréttingin var pöntuð. Upphaflega stóð til að kaupa framhliðar hjá HAF studio en mér þykir þær svo fallegar. Ég sá hins vegar að IKEA væri að fá framhliðar sem voru gerðar úr endurunnum plastflöskum í lit sem mér þótti mjög fallegur. Mér finnst mikilvægt að reyna að velja umhverfisvæna kosti og ekki kom að sök að liturinn smellpassaði við litapallettu heimilisins,“ segir Hildur. „Borðplöturnar eru úr efni sem heitir dekton en það er mjög harðgert efni; bæði er hægt að leggja allt heitt frá sér á það og skera brauð beint á borðplötunni. Reynsla sem við hjónin höfum af marmara sýndi mjög fljótt fram á það að marmari hentar okkur fjölskyldunni ekki, enda var ég í eilífu stresskasti yfir hverjum dropa.“

Eldhúsið eitt helsta íverurými fjölskyldunnar

Húsráðendur lögðu upp með að eldhúsið yrði hjarta heimilisins, og úr eldhúsinu má sjá yfir stofu og borðstofu. „Gestir setjast oft við eyjuna á meðan matur er undirbúinn og spjalla við eldabuskuna. Eins situr elsta dóttir mín þar og les heimalesturinn á meðan ég geng frá eða elda,“ segir Hildur og bætir því við að eldhúsið hafi breyst úr því að vera í afskekktu horni með aðeins glugga í norður í það að vera eitt helsta íverurými fjölskyldunnar með birtu úr nánast öllum áttum.

Selskapseldhús og brúðarveisla

Uppáhaldsréttur Hildar er spínatbaka löðrandi í osti og smjördeigi  eins bleikur búst sem hún fær sér á hverjum morgni. Hún segist ekki vera dugleg í eldhúsinu en hefur gaman af aqð taka á móti gestum þó að það hafi borið minna á því síðustu misserin vegna covid. „Við náðum þó að halda litla brúðkaupsveislu hér heima, en til stóð að halda stærri í sumar sem bíður betri tíma. Við buðum bara nánustu fjölskyldu og vinum en það voru samt sem áður rúmlega 40 manns í veislunni sem dreifðust vel um jarðhæðina. Þá virkaði eyjan sem eins konar bar og eldhúsið sannaði sig vel sem selskapseldhús. Við vonumst til þess að geta haldið fleiri matarboð, veislur og boð með hækkandi sól,“ segir Hildur að lokum.

Fyrir áhugasama þá má sjá nánar um allt ferlið á instagramsíðu Hildar HÉR, og þá undir „story highlights – Alrými“.

- - -

Fylgstu með Mat­ar­vefn­um á In­sta­gram og Face­book. Enda­laus æv­in­týri, hug­mynd­ir, skemmti­leg­ir leik­ir og allt það heit­asta heita ...

Svo megið þið endi­lega tagga okk­ur á In­sta­gram þegar þið eruð að elda eitt­hvað spenn­andi @mat­ur.a.mbl

Innréttingin er frá IKEA og þess má geta að framhliðarnar …
Innréttingin er frá IKEA og þess má geta að framhliðarnar eru gerðar úr endurunnum plastflöskum. Borðplöturnar eru úr efni sem heitir Dekton og þolir svo til allt. Mbl.is/Aðsend
Hér má sjá lága skápa sem mynda bekk. Á móti …
Hér má sjá lága skápa sem mynda bekk. Á móti bekknum á að koma vínkælir og opnar hillur fyrir glös og annað. Takið einnig eftir litla eldhúsinu sem er í sama stíl og eldhús heimilisins. Mbl.is/Aðsend
Fjarlægðir voru tveir veggir til að opna betur inn á …
Fjarlægðir voru tveir veggir til að opna betur inn á milli rýma. Eldhús og stofurými tengjast því mun betur saman í dag. Mbl.is/Aðsend
Eldhúsið eins og það var er húsráðendur keyptu húsið.
Eldhúsið eins og það var er húsráðendur keyptu húsið. Mbl.is/Aðsend
Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og umhverfisfræðingur.
Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt og umhverfisfræðingur. Mbl.is/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka