Helgaruppskriftin sem gerir allt betra

Geggjaður risotto réttur sem vert er að prófa.
Geggjaður risotto réttur sem vert er að prófa. Mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir

Hér er á ferðinni réttur fyrir þá sem vilja gera vel við sig og sína; risotto með stökkri parmaskinku í hlynsírópi, ásamt ferskum aspas og sítrónuberki. Uppskriftin kemur frá Hildi Rut sem segist hafa fengið hugmyndina úr bók frá Donnu Hay sem er í miklu uppáhaldi hjá henni.

„Parmaskinkan verður svo extra stökk og ljúffeng svona ofnbökuð með hlynsírópi. Mæli með að þið prófið,“ segir Hildur Rut.

Helgarréttur fyrir dekurdýrin (fyrir 2-3)

  • 3 dl arborio-hrísgrjón
  • 9-10 dl kjúklingasoð (vatn og kjúklingateningur)
  • 2 msk. smjör
  • 1 dl hvítvín
  • 1 laukur
  • 1-2 hvítlauksrif
  • salt og pipar
  • 1 dl parmesanostur + meira til að bera fram með
  • 1 pkn parmaskinka
  • 1-2 msk. hlynsíróp
  • rifinn börkur af ½-1 sítrónu
  • 8-10 stk. ferskur aspas

Aðferð:

  1. Hellið vatni í pott og hitið. Bætið kjúklingateningi út í og hrærið saman við. Haldið kjúklingasoðinu heitu á vægum hita.
  2. Skerið laukinn smátt og steikið á pönnu upp úr smjöri.
  3. Pressið hvítlaukinn út í og hellið arborio-grjónunum saman við og hrærið.
  4. Þegar grjónin eru orðin glær á endunum hellið þá hvítvíninu út í og hrærið saman við. Þau eru fljót að drekka í sig hvítvínið.
  5. Hellið því næst 1-2 dl af soðinu út í og hrærið. Þegar grjónin hafa drukkið í sig soðið hellið þið aftur 1-2 dl af soði út í og hrærið. Gerið þetta koll af kolli þangað til soðið er búið og grjónin tilbúin. Þau eiga að vera mjúk og rjómakennd. Ég mæli með því að smakka og ef þau eru ennþá seig bætið þá meira vatni við. Saltið og piprið eftir smekk.
  6. Dreifið svo rifnum parmesanostinum út í og hrærið.
  7. Dreifið parmaskinkunni á bökunarplötu þakta bökunarpappír og penslið yfir með hlynsírópi. Bakið í 10-12 mínútur við 190°C eða þar til hún verður stökk.
  8. Skerið aspasinn í þunnar og langar sneiðar. Steikið upp úr ólífuolíu á pönnu og saltið og piprið eftir smekk. Rífið sítrónubörkinn í skál.
  9. Berið risottoið fram með parmaskinku, aspas, sítrónuberki og parmesanosti eftir smekk. Njótið.
Mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert