Hér kynnum við kjúkling í parmesan raspi með ferskum mozzarella og tómatbasil sósu – eða „Chicken parmigiana”, eins og rétturinn er oftast kallaður. Þetta er hin fullkomna uppskrift þegar gera á vel við sig. En það er Hildur Rut á Trendnet sem býður okkur upp á þennan ljúffenga kjúklingarétt sem hefur gert réttinn að sínu eins og henni einni er lagið.
Kjúklingaréttur með haug af parmesan
- 3 kjúklingabringur
- Salt og pipar
- 2-3 msk hveiti
- 50 g smjör, skorið í teninga
- 1 stórt egg
- 2 dl pankó rasp (fæst t.d. í Hagkaup, Krónunni og Nettó)
- 1 dl ferskur parmesan ostur, rifinn
- Salt og pipar
Sósa
- Tilbúin tómatssósa með basiliku (ég notaði frá Olifa)
- 2 msk parmesan
- ½-1 tsk hungang
- 1-2 hvítlauksrif
- Salt og pipar
- Cayenne pipar
- Ferskur mozzarella, 2 kúlur
- Rigatoni
- Fersk steinselja eða basilika
Aðferð:
- Skerið bringurnar í tvennt svo úr verði tvær sneiðar.
- Hrærið saman rifnum parmesan osti og raspi í skál.
- Veltið kjúklingnum uppúr hveiti, salti og pipar. Því næst veltið þeim upp úr eggi og svo að lokum parmesan og panko raspinum.
- Dreifið helmingnum af smjörinu í botninn á eldföstu móti. Leggið bringurnar ofan á og að lokum dreifið restinni af smjörinu yfir. Bakið í ofni í 20 mín við 200°C.
- Á meðan kjúklingurinn bakast þá er gott að gera sósuna. Blandið saman tilbúnu sósunni, parmesan osti, hunangi, pressuðu hvítlauksrifi, cayenne pipar, salti og pipar. Endilega smakkið ykkur til.
- Skerið mozzarella í sneiðar og dreifið honum yfir kjúklinginn og hellið svo sósunni yfir. Bakið í 10 mínútur í viðbót eða þar til osturinn er bráðnaður og kjúklingurinn er tilbúinn.
- Á meðan kjúklingurinn er að bakast í ofninum þá er gott að sjóða rigatoni eftir leiðbeiningum á pakkningu.
- Toppið svo í lokin með ferskri basiliku eða steinselju og berið fram með rigatoni, restinni af sósunni og meiri parmesan osti.
Mbl.is/Hildur Rut Ingimarsdóttir