Fóðrar svínin á avókadó, perum og poppi

Mbl.is/ Mercury Press

Sumstaðar þykir fullkomlega eðlilegt að sofa með svínum í rúmi og fóðra þau með avókadó og poppkorni. Hljómar eins og lygasaga en þetta er alveg dagsatt!

Hún heitir Sherrell Williams og er frá Liverpool þar sem hún býr ásamt unnusta sínum Thomas. Hana langaði alltaf í gæludýr en þar sem hún glímir við astma koma loðnir vinir ekki til greina. Þau ákváðu því að taka að sér tvö lítil svín sem stjórna hreinlega heimilinu í dag.

Svínin fara í froðubað einu sinni í viku með nokkrum gúmmíöndum, síðan greiðir Sherrell þeim og ef hún sér eitthvað spennandi í búðarferðum – þá kaupir hún dót handa þeim. Hún keypti t.d. lítið rúm sem svínin rifu þó í tætlur og kjósa frekar að sofa uppi í sófa með teppi og stelast jafnvel annað slagið upp í rúm til eigenda sinna. Svínin hafa fengið þjálfun og segir Sherrell þau kunna að hoppa ef hún segir þeim til. En þau hlaupast líka undan ef þau gera eitthvað af sér.

Sherrell segist einnig passa það vel að borða ekki beikon fyrir framan þau, en svínin byrja alla daga á að gæða sér á þurrfóðri klukkan 6:30 á morgnana. Síðan æfa þau í garðinum, smjatta á avókadó, gulrótum, perum og poppi – horfa á sjónvarpið og hlusta á Ed Sheeran. Eins fá þau kókosolíu til að halda húðinni fallegri og glansandi. Þetta hljómar eins og svínin fái betri meðferð en margur annar og lifi hreint út sagt sínu besta lífi.

Sherrell með gæludýra-svínunum sínum sem hún dekrar fyrir allan peninginn.
Sherrell með gæludýra-svínunum sínum sem hún dekrar fyrir allan peninginn. Mbl.is/ Mercury Press
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka