Þau eru stór, lítil, ílöng, flöt eða jafnvel ljós, dökk og freknótt – brjóst eru allskonar. Og því hefur Andrea ákveðið að heiðra kvenmannsbrjóst með óvenjulegum keramík bollum.
Hún heitir Andrea Mikkelsen og er sjálflærður keramíker frá Danmörku, en hún hefur hannað óvenjulega bolla þar sem enginn þeirra er nákvæmlega eins. Andrea hefur skapað sér nafn þar í landi með yfir 18 þúsund fylgjendur á Instagram þar sem bollarnir hafa slegið í gegn. Það sem setti Andreu á kortið var þegar Krabbameinssamtökin þar í landi höfðu samband og óskuðu eftir bollum – þau deildu því næst mynd af bollunum hennar og eftir það fóru hjólin að rúlla. Hún hætti í skóla til að anna eftirspurn í keramíkinni sem hefur gengið vonum framar og á hún ekki langt að sækja, því móðir hennar er einnig listakona. Andrea segir að konur sjái sjálfa sig í bollunum, eða þær hafa fundið spegilmyndina sína. Hægt er að fylgjast með Andreu á síðunni hennar HÉR.