Veitingahúsamenningin á Grandanum er hreint með ólíkindum enda fjölbreytileikinn mikill og gæðin einstök. Allt frá hinu óhefðbundna Coo Coo's Nest með sinn heiðarlega og bragðgóða mat, yfir í pítsumeistaran í Flatey, að ógleymdri sjálfri Valdísi. Granóla-barinn verður svo opnaður á næstunni, Bryggjan er í miklu stuði, Mathöllin er framúrskarandi, La Primavera passar upp á sína og er upptalningin hvergi nærri búin.
Einn er þar staður sem þykir í sérflokki og þá ekki síst fyrir meðhöndlun sína á íslensku lambakjöti en við erum að tala um veitingastaðinn Lamb Street food. Vefjur staðarins þykja með þeim betri og vill svo skemmtilega til að ein sú vinsælasta á matseðlinum heitir túnrollan!
Orðspor veitingastaðarins hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin þrjú ár og þykja fáir standast þeim snúning þegar kemur að góðum götumat – hvað helst í vefjum.
Lykillinn að góðum mat liggur ekki síst í úrvalshráefni en allar sósur eru búnar til frá grunni á staðnum og er meginuppistöðuhráefnið skyr og ólífuolía. Allt flatbrauð er bakað á staðnum og ferskar kryddjurtir áberandi.
Lamb Street Food er jafnframt plastlaus veitingastaður sem leggur mikið upp úr flokkun og ábyrgð gagnvart umhverfinu auk þess að einbeita sér að innlendu hráefni sem minnkar kolefnisfótsporið.
Hönnun staðarins vakti strax í upphafi mikla athygli enda áhugaverð nálgun á íslenska sauðfjárhefð og ekki annað hægt en að taka undir þau orð að staðurinn sé þar sem Bjartur í Sumarhúsum hitti heimsborgarann.