Sælkerinn Gulli Arnar velur vikuseðilinn

Gulli Arnar er einn vinsælasti sælkerabakari landsins, og það ekki …
Gulli Arnar er einn vinsælasti sælkerabakari landsins, og það ekki að ástæðulausu. Ljósmynd/Aðsend

Sælkerabakarinn Gulli Arnar segist vera alæta á mat – og heiðarlegur heimilismatur er þar fremst í flokki. Gulli velur fyrir okkur vikumatseðilinn þessa vikuna sem er ljúffengur að okkar mati.

Gulli Arnar er margverðlaunaður bakari sem rekur handverksbakarí undir eigin nafni í Hafnarfirði, en fólk leggur sérstaklega leið sína í Flatahraun til að kaupa nýbakað bakkelsi og aðrar sælkerakrásir. „Ég og mitt samstarfsfólk gerum okkar besta við að bjóða viðskiptavinum upp á ferska hágæðavöru á hverjum degi. Nú geta allir tekið gleði sína á ný og farið að halda langþráð partý, útskriftir, fermingar, brúðkaup og þess háttar sem gerir vinnudagana fjölbreyttari við að sinna sérpöntunum. Ástríðan okkar liggur í bakstri og það eru mikil forréttindi að vakna og vinna við það sem þér þykir skemmtilegast á hverjum degi, ég myndi mæla með því fyrir alla,“ segir Gulli í samtali.

Gulli segist vera farinn að finna fyrir smávægilegri pressu með að flytja að heiman, en hann býr enn ýmist í foreldrahúsum eða hjá tengdafjölskyldunni og hefur því lítil áhrif á vikumatseðilinn heima fyrir. „Mamma og tengdamamma eru algjörar drottningar í eldhúsinu, þó svo pabbi búi yfir mikilli matarástríðu og metnaði sem skilar honum mjög langt. Kjúklingaréttir eru í miklu uppáhaldi hjá mér, en ég geri svakalegan djúpsteiktan kjúkling – og hefð er að hafa steik um helgar. Eins er ég mikið fyrir afganga, en afgangar daginn eftir eru oft bara betri ef eitthvað er,“ segir Gulli og þar erum við sammála. Hann bætir því einnig við að þegar hann og kærastan þurfi að sjá um kvöldmatinn verði taco oft fyrir valinu – en hann segir jafnframt að þegar þau Kristel byrji að búa muni hann líklegast stjórna eldhúsinu og hún vega upp á móti á öðrum sviðum.

Til að fylgjast nánar með Gulla og handverksbakstrinum bendum við á heimasíðuna HÉR og á Instagram HÉR.

Mánudagur:
Verður ekki að vera fiskur einu sinni í viku? Mánudagar eru bara flottir í það.

Þriðjudagur:
Taco tuesday. Taco mun vera reglulega á boðstólnum á mínu heimili

Miðvikudagur:
Kjúklingur er í miklu uppáhaldi, helst eitthvað einfalt sem hægt er að skella öllu saman í ofn og bera fram með góðu meðlæti.

Fimmtudagur:
Ég er búinn að vera með miklar yfirlýsingar um að ég geri mjög gott pasta carbonara, það er kannski kominn tími til að standa við það.

Föstudagur:
Á föstudögum eru allir komnir í helgargír, þá er pizza alveg málið.

Laugardagur:
Helgarsteikin, það jafnast ekkert á við hana.

Sunnudagur:
Afgangar frá deginum áður, gott súrdeigsbrauð og sunnudagsmatnum er bjargað.

Handverkið er stórkostlegt!
Handverkið er stórkostlegt! Ljósmynd/Instagram_gulliarnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka