Dúxinn bauð upp á ótrúlega útskriftaveislu

Glæsilegt veisluborð hjá Elínu Helgu! Í baksýn má sjá glitta …
Glæsilegt veisluborð hjá Elínu Helgu! Í baksýn má sjá glitta í blöðruskúlptúr frá PIPPU í litum sem tóna við þema veislunnar. Mbl.is/Valgarður Gíslason

Elín Helga Lárusdóttir brautskráðist 19. júní síðastliðinn frá Háskólanum í Reykjavík og var dúx við viðskiptadeild HR. Hún var staðráðin í að halda upp á brautskráninguna og var með sínar hugmyndir um hvernig veislu hana langaði að vera með. Elínu Helgu hafði dreymt um að halda útskriftarveislu og fagna með ættingjum og vinum með pomp og prakt en það var ekki ljóst fyrr en snemma sumars að hægt væri að halda fjölmenna útskriftarveislu vegna þeirra samkomutakmarkana sem gilt hafa vegna faraldursins. Samkomutakmörkununum var sem betur fer aflétt að stórum hluta fyrir stóra daginn, svo Elín Helga ákvað að fara alla leið og bjóða í draumaútskriftarveisluna sína þar sem hugsað væri fyrir allri heildarumgjörð veislunnar með öllu hennar uppáhalds. Við innkomuna gengu gestirnir beint í kampavínsstofuna þar sem tekið var á móti þeim með kampavíni og blinis með reyktum laxi og kavíar annars vegar og risarækjum hins vegar. Kampavínið var sérstaklega valið með þeim sælkerakræsingum sem boðið var upp á.

Lifandi blóm og hvítir litatónar í bland við jarðliti

„Þar sem útskriftarveislan var haldin í júní og sólin var byrjuð gleðja okkur með geislum sínum, þá var ekkert annað sem kom til greina en að dekka borðin í ljósum litatónum og hvíti liturinn var allsráðandi. Ég vildi jafnframt nýta rýmin bæði inni og úti á palli. Það mætti segja að innblásturinn hafi komið með sumrinu sem var í garð gengið og andanum yfir útskriftinni. Mér finnst mjög mikilvægt að huga vel að borðskreytingum, veitingum og heildarumgjörð veislunnar þegar gesti ber að garði, það hef ég lært af móður minni. Ég fékk bæði móður mína og Hrafnhildi Þorleifsdóttur í Blómagalleríinu við Hagamel til að koma með hugmyndir að blómum, sem voru í raun aðalskraut veislunnar. Veisluborðin og skreytingarnar eru oftar en ekki það fyrsta sem fólk tekur eftir er það mætir í veislur, og borðin eru einnig staðurinn þar sem gestirnir staldra við hvað lengst fram eftir kvöldi og njóta góðs matar og samveru,“ segir Elín Helga – en veislan var haldin í foreldrahúsum þar sem er vel veislufært, tvær samliggjandi stofur í opnu rými og útgengi úr stofunum beint út á pall.

„Til að tengja borðin þrjú saman ásamt sveppaborðunum úti á palli voru lifandi blóm í aðalhlutverki, það er bæði náttúrulegt og fallegt að skreyta með lifandi blómum en úrvalið hjá Hrafnhildi er bæði ævintýralegt og frumlegt. Blómin voru í nokkrum misstórum glærum vösum á miðju hvers og eins sveppaborðs sem og innan um veitingarnar og gerðu þar af leiðandi borðin meira lifandi þar sem hvíti liturinn lék aðalhlutverkið. Einnig vorum við með tvo stóra og veglega vendi í tveimur stórum vösum, annars vegar á kampavínsborðinu og við sælkerakræsingaborðið,“ segir Elín Helga í samtali. Eins mátti sjá veglegan blöðruskúlptúr frá Pippu, sem sérhæfir sig í partískrauti, sem settur var upp við sælkerakræsingaborðið þar sem perluhvíti liturinn var í forgrunni, sveipaður bláa fánalitnum til tákns um útskriftina.

Þema veislunnar minnti vel á náttúruna og sumarið. Hugsað var út í samsetninguna og efnivið og litatónum raðað saman sem mynda stílhreina litapallettu. „Við völdum hvítan hördúk á borðið, hvítar servíettur og hvíta pappadiska. Við vorum jafnframt með keramikföt í jarðlitum sem pössuðu vel við það sem fyrir var,“ segir Elín Helga.

Lemon -júsbar á pallinum sló í gegn

Elín Helga lagði mikið upp úr því að vera með veitingar fyrir alla og vildi tryggja að allir fengju eitthvað við sitt hæfi. Þegar þrjár til fjórar kynslóðir koma saman og sumir vilja vera í hollu og fersku línunni og er gaman að setja saman kræsingar sem ná til allra. Draumur Elínar Helgu var að vera með djús og samlokur frá Lemon en hún er mikil íþróttakona og æfir handbolta hjá Val  því mikið fyrir hollustuna. Nýr og brakandi ferskur djús frá Lemon var því í toppsætinu hjá útskriftardömunni.

„Það þarf að passa að það sé eitthvað fyrir alla; unga fólkið, fullorðna og eldri borgara. Þar sem mikill tími fer í uppsetningu, skreytingar og athöfnina sjálfa fannst okkur mömmu dásamlegt að úthýsa ákveðnum þáttum og kaupa veitingar hjá veitingaþjónustum. Við vorum til að mynda með Lemon-djúsbar og Lemon-samlokur á pallinum sem slógu í gegn. Flestir djúsarnir eru vegan og svo er líka boðið upp á vegansamlokur. Pabbi minn smíðaði og hannaði barinn á pallinum sem kom ótrúlega vel út og fengum við skilti frá Lemon til að setja framan á barinn þar sem við keyptum hjá þeim aðföngin og þjónustuna á barnum. Einnig vorum við með ekta íslenskar kótilettur í raspi frá Fjárhúsinu sem slógu rækilega í gegn, sælkerakokteilsnittur og risarækjupinna frá Múlakaffi, sæta franska bita frá Gulla Arnari bakara og blinis frá Trúnó. Til að toppa sæta þemað buðum við upp á kókosbollur frá Kólus og nýjan lakkrís. Sjálfar gerðum við sælkeraosta- og sælubakka troðfullan af ferskum ávöxtum og bárum fram á fallegum íslenskum handverksbrettum. Auðvitað var síðan boðið upp á vatnsmelónur og lakkrísreimar sem er fullkomið kombó, sérstaklega með kampavíninu,“  segir Elín Helga.

Útskriftarkaka og sætir bitar heilla

Elínu Helgu langaði til að vera með útskriftarköku í veislunni en toppurinn á sælkerakræsingaborðinu er gjarnan kakan sem er oftar en ekki gerð í anda þess sem útskrifast. Hún fékk því Örnu Guðlaugu Einarsdóttur hjá Kökukræsingum til að baka og skreyta útskriftarkökuna sem var tilvalið að bera fram á sælkerakræsingaborðið og gleðja bæði auga og munn. Arna bakaði hálfnakta flauelsmjúka súkkulaðiköku með hvítu vanillukremi að ósk Elínar Helgu sem prýddi þema veislunnar. Kakan var skreytt með blómum sem var þema veislunnar og það þurfti ekki meira til, kakan var hið glæsilegasta augnakonfekt og ómótstæðilega ljúffeng. „Mörgum finnst gott að narta í sæta bita eftir matinn og því var kærkomið að bjóða líka up pá sætu bitana frá Gulla Arnari, með frönsku ívafi, og pössuðu þeir ákaflega vel með,“ segir Elín Helga.

Frikki Dór toppaði veisluna

Óvænt tónlistaratriði brýtur upp veisluformið og myndar stemningu meðal veislugesta, það fellur seint úr gildi. „Fjölskyldan mín gaf mér óvænta útskriftargjöf; Frikki Dór mætti á svæðið og tók nokkur skemmtileg lög við mikinn fögnuð allra viðstaddra og myndaði frábæra stemningu. Það má með sanni segja að hann hafi toppað veisluna með innkomu sinni,“ segir Elín Helga að lokum eftir sannarlega vel heppnaðan og einstaklega fallegan útskriftardag.

Elín Helga Lárusdóttir, dúx við Viðskiptadeild HR. Hún hélt stórkostlega …
Elín Helga Lárusdóttir, dúx við Viðskiptadeild HR. Hún hélt stórkostlega veislu í tilefni dagsins í júní sl. Mbl.is/Valgarður Gíslason
Það var Hrafnhildur hjá Blómagallerí sem sá um blómaskreytingar í …
Það var Hrafnhildur hjá Blómagallerí sem sá um blómaskreytingar í veislunni eins og henni einni er lagið. Mbl.is/Valgarður Gíslason
Frikki Dór mætti óvænt og spilaði fyrir veislugesti.
Frikki Dór mætti óvænt og spilaði fyrir veislugesti. Mbl.is/Valgarður Gíslason
Æðisleg kaka úr smiðju Örnu Guðlaugar hjá Kökukræsingum - fagurlega …
Æðisleg kaka úr smiðju Örnu Guðlaugar hjá Kökukræsingum - fagurlega skreytt blómum í anda veislunnar. Mbl.is/Valgarður Gíslason
Heimasmíðaður Lemon bar í garðinum - ferskir djúsar og samlokur.
Heimasmíðaður Lemon bar í garðinum - ferskir djúsar og samlokur. Mbl.is/Valgarður Gíslason
Blinis með reyktum laxi og kavíar - namm!
Blinis með reyktum laxi og kavíar - namm! Mbl.is/Valgarður Gíslason
Vatnsmelónur og lakkrísreimar er fullkomið kombó, sérstaklega með kampavíni.
Vatnsmelónur og lakkrísreimar er fullkomið kombó, sérstaklega með kampavíni. Mbl.is/Valgarður Gíslason
Hvert öðru girnilegra.
Hvert öðru girnilegra. Mbl.is/Valgarður Gíslason
Mbl.is/Valgarður Gíslason
Litirnir í fersku berjunum hleypa vatni í munninn.
Litirnir í fersku berjunum hleypa vatni í munninn. Mbl.is/Valgarður Gíslason
Ekki algengt að sjá kótilettur í raspi í veislum, en …
Ekki algengt að sjá kótilettur í raspi í veislum, en hér var hugsað út í alla boðaða gesti að þeir myndu finna sitt á borðum. Mbl.is/Valgarður Gíslason
Mbl.is/Valgarður Gíslason
Geggjað að hafa kókosbollur og lakkrís á boðstólnum!
Geggjað að hafa kókosbollur og lakkrís á boðstólnum! Mbl.is/Valgarður Gíslason
Bjórinn var kældur í klökum í hjólbörum úti á palli.
Bjórinn var kældur í klökum í hjólbörum úti á palli. Mbl.is/Valgarður Gíslason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert