Það er nákvæmlega svona sem diskar líta út þegar þeir eru fagurlega skreyttir með handgerðum munstrum sem eiga engan sinn líka. Við rákumst á þessa fallegu diska á vafri um netið og værum sannarlega til í að leggja þá á borð. Hér er um ekta ítalska hönnun að ræða sem vakið hefur athygli fagurkera þarna úti.
Hún heitir Francesca Colombo og er menntaður fatahönnuður sem starfað hefur hjá virtustu vörumerkjum í faginu, bæði í Mílanó og París. Hún kom einnig að innanhússhönnun á Spáni áður en hún stofnaði sitt eigið vörumerki í heimabæ sínum Mílanó, þar sem hún framleiðir diska, veggfóður og textíl. Stíllinn hennar einkennist af óvenjulegum litasamsetningum og smáatriðum sem má augljóslega sjá í verkum hennar – en þess má geta að öll framleiðslan fer fram á Ítalíu.
Skrautlegir diskar hafa verið meira áberandi undanfarið hjá mörgum hönnuðum og framleiðendum, sem setja svo sannarlega nýjan tón á matarborðið. Heimasíðu Francescu má finna HÉR.