Hér er gómsæt tertuuppskrift úr smiðju Georg Jensen Damask, þar sem enginn annar en stjörnukokkurinn Mikkel Karstad á heiðurinn. Ekta frönsk galette með brómberjum og heslihnetum – eða fullkomin sunnudagskaka.
Ekta frönsk terta með brómberjum og heslihnetum
Deig
- 100 g mjúkt smjör
- 175 g hvítt hveiti
- 50 g hafrar
- 50 g sykur
- 30 g hakkaðar heslihnetur
- Klípa af salti
- Smá vatn til að koma deiginu saman
Fylling
- 500 g brómber
- 1 lífræn sítróna
- 2 msk flórsykur
- 3 greinar timían
- Smá flórsykur
- 200 ml hrein jógúrt
- ½ vanillustöng
- 1 msk acacia hunang
Aðferð:
- Setjið smjörið í skál og hnoðið hveiti, sykur, hafra og hakkaðar hneturnar út í smjörið.
- Bætið salti og smá vatni saman við til að koma deiginu saman og gera það sveigjanlegt.
- Setjið deigið í kæli í 30 mínútur, þá verður auðveldara að vinna með það.
- Skolið brómberin í köldu vatni og setjið í skál.
- Veltið deiginu út í hring á bökunarpappír, mjög þunnt – sirka 26-28 cm í þvermál.
- Setjið brómberin á mitt deigið og stráið fínt röspuðum sítrónuberki yfir, ásamt smátt söxuðu timían og flórsykri.
- Brjótið brúnirnar upp yfir fyllinguna þannig að brúnirnar haldi öllu saman.
- Setjið galettuna inn í ofn og bakið í 20-25 mínútur við 170°, þar til fallega gyllt að ofan og skorpan er orðin stökk.
- Hrærið vanillunni saman við hunangið, sítrónusafa og jógúrtina til að búa til kremið.
- Takið galettuna úr ofni og látið kólna örlítið. Stráið þá flórsykri yfir og berið fram með vanillukreminu.
mbl.is/Georg Jensen Damask