Fela veitingastaðinn á bak við málverk

FREVO er áhugaverður og smart veitingastaður í New York.
FREVO er áhugaverður og smart veitingastaður í New York. Mbl.is/MARK GRGURICH

Á bak við fínasta málverk á Greenwich Village-listasafninu er veitingastað að finna. Falinn frá öllum ys og þys New York-borgar. Íbúar New York eru víst færir í að halda hlutunum leyndum því þar í borg finnast leynilegir kokteilbarir, fallegir garðar fyrir útvalda og svona mætti lengi telja. Það nýjasta er veitingastaðurinn FREVO sem á engan sinn líka.

Til þess að rata á staðinn þarftu að fylgja heimilisfanginu að West 8th Street, þar sem þú finnur lítið gallerí – og ekki örvænta, þú ert á réttum stað. Þegar þú kemur inn á staðinn og dregur eitt af málverkunum til hliðar birtast þér leyndar dyr að ólýsanlegri upplifun í mat og drykk. Hér finnurðu veitingastað sem rúmar 14 manns í sæti, og því er eftirspurnin mikil að komast að.

Mbl.is/MARK GRGURICH

Upplifunin er líkt og í skáldsögu eða rómantískri bíómynd, því töfrarnir leyna sér ekki frá fyrsta skrefi. Matseðillinn er heldur ekki af verri endanum og breytist með árstíðum, allt ferskt og flestallt keypt beint frá býli. Hér má til dæmis gæða sér á sex rétta smakkmatseðli, þar sem tilheyrandi vín fylgir hverjum diski – grillaður aspas með pistasíuhnetukremi, humar í Breton-karríi, reykt smjörsósa, laxahrogn og margt fleira sem kitlar bragðlaukana.

Á FREVO er hugsað fyrir öllu, því hnífapörin eru sérhönnuð ásamt glösum og einnig lagalistinn sem heyrist óma ljúflega í bakgrunninum. Hér er hugsað fyrir öllum smáatriðum í afslöppuðu og glæstu umhverfi. En hvaðan skyldi nafnið koma? Jú, „frevo“ er portúgalskt orð yfir „að sjóða“ sem gefur staðnum sérstaka þýðingu í einni þekktustu stórborg heims. Að okkar mati er FREVO klárlega kominn á listann góða sem þarf að fara haka við og skoða.

Mbl.is/MARK GRGURICH
Mbl.is/MARK GRGURICH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert