Hún er fagurkeri út í fingurgóma og sannur töframaður er kemur að því að elda hvers kyns mat og aðrar krásir. Við erum að sjálfsögðu að tala um matarbloggarann Maríu Gomez.
„Þessa dagana er ég á fullu að keppast við að klára nóvemberverkefnin fyrir bloggsíðuna mína paz.is þrátt fyrir að sé kominn desember, en það er alltaf brjálað að gera hjá mér þegar líða fer að jólum. Þetta árið hins vegar ákvað ég að ég ætli að taka desember rólega (sama loforð og ég gef mér hvert ár) nema núna ætla ég mér að standa við það og reyna að njóta aðventunnar með börnunum mínum. Ég er búin að jólaskreyta og kaupa eins og helming jólagjafa svo ég sé fram á að það muni takast þetta árið að standa við loforðið. Þið megið því alveg búast við því að sjá mig á kaffihúsi næstu vikurnar, með stóran krakkaskara að sötra heitt kakó og njóta,“ segir María í samtali.
Mánudagur:
Eru ekki mánudagar fiskidagar? Kókós- og karrífiskréttir geta bara ekki klikkað að mínu mati.
Þriðjudagur:
Hún Berglind Guðmunds hjá Gulur, rauður, grænn og salt klikkar aldrei, og ef hún segir að eitthvað sé gott þá er það pottþétt gott. Enda hvað getur klikkað – hér eru kjötbollur löðrandi í osti.
Miðvikudagur:
Hvað er betra í nístingskulda en sjóðandi heit og yljandi kjötsúpa? Ég elska að gera súpur því oft eru þær enn betri daginn eftir og hægt að hafa sem afganga.
Fimmtudagur:
Allt sem er húðað í panko-raspi lætur mig kikna í hnjánum, ég tala nú ekki um ef það er líka löðrandi í osti eins og þessi girnilegi réttur.
Föstudagur:
Hér kemur ein föstudagspizza frá mér sjálfri en ég gat bara ekki sleppt því að deila henni með ykkur. Þessa uppskrift bjó ég til fyrir nokkrum árum og er þessi pizzasósulausa humarpizza einfaldlega sú allra besta sem ég hef smakkað.
Laugardagur:
Allt sem ég hef séð frá henni Jennifer Berg er bara eitthvað svo fágað og ofurgirnilegt, svo er hún líka bara svo ógurlega mikil fegurðardrottning að maður hlýtur að verða fallegur af að borða mat eins og hún.
Sunnudagur:
Berglind vinkona mín er ein sú öflugasta sem ég þekki. Í fullri vinnu og með stórt heimili gefur hún út hverja bókina á eftir annarri ásamt því að labba á fjöll og ferðast eins og enginn sé morgundagurinn. Ef hún hefur tíma til að elda svona girnilegt sunnudagslæri ættum við flest að geta það líka.