„Jólabjórinn sem við erum með í sölu í Vínbúðunum er enn í mjög góðu ástandi og við viljum ekki að hann fari til spillis. Því lækkum við verðið og vonum að neytendur sjái sér hag í því að drekka jólabjór aðeins fram á nýja árið og taka um leið þátt í að minnka það magn af bjór sem þarf að farga,“ segir Hilmar Geirsson, vörumerkjastjóri hjá Víking brugghúsi.
Rétt eins og fyrri ár hefur Víking ákveðið að lækka verðið á jólabjór í Vínbúðunum á síðustu dögum sölu hans þar. Jólabjórinn verður í sölu fram í næstu viku hið minnsta en verður þá endursendur til birgja og honum fargað.
Þetta er sjötta ári í röð sem Víking lækkar verðið á jólabjór í janúar. Í tilkynningu á Facebook-síðu Víking brugghús kemur fram að þessi lækkun hafi mælst vel fyrir hjá neytendum. „Matarsóun og umhverfisvitund hefur sjaldan verið jafn mikið í umræðunni og fólk almennt sammála um að draga þurfi úr sóun. Skál fyrir umhverfinu,“ segir á síðu Víking.
Þar kemur jafnframt fram að Víking jólabjór 500 ml dós kosti nú 329 krónur og 330 ml dós kosti nú 269 krónur. Hvít jól kostar nú 309 krónur og Víking lite jóla í lítilli dós kostar 245 krónur svo dæmi séu tekin.