Á Sólheimum er samheldið og fjölbreytt samfélag – og þar er að finna listasmiðju sem elur af sér flinkustu listamenn landsins svo ekki sé meira sagt.
Sólheimar er sjálfbært samfélag með rúmlega 100 einstaklingum sem þar búa og starfa. Hér er lögð stund á lífræna ræktun og einnig er rekið bakarí og matvinnsla, þar sem gestir og gangandi geta komið og notið í fallegu umhverfi. Fjöldi listvinnustofa er á Sólheimum, svo sem kertagerð, listasmiðja, keramik, vefstofa, jurtastofa og smíðastofa. Og í listasmiðjunni eru flinkustu listamenn landsins að finna – enda einstakt handverk sem á engan sinn líka.
Við hér á matarvefnum erum sérlega hrifin af Dopplubollunum sem eru thermo-bollar prýddir doppum – myndskreyttum eftir Kristján Atla Sævarsson. Bolli sem heldur vel heitu en hitnar ekki í gegn. Dopplubollarnir koma í sex mismunandi litum þar sem hver og einn litur táknar einn af okkar einstöku eiginleikum – eins og leikgleði, að vera skapandi, mínimalískur o.fl. Og ekki má gleyma bollunum frá Einari Baldurssyni eða Erlu Björk Sigmundsdóttur – þau skreyta bolla og undirskálar með glaðværum teikningum og eru ófeimin við að nota liti sem lífga upp á kaffitímann. Það má finna Sólheimabollana og margt annað fallegt til gjafa á heimasíðunni þeirra HÉR, eða taka sunnudagsbíltúrinn austur fyrir fjall og kíkja á kaffihúsið og galleríið af eigin raun.