Saga candyfloss á sér langa og skemmtilega sögu, en sykursætu hnoðrarnir hafa notið vinsælda hjá ungum sem öldnum í gegnum tíðina og það alls ekki að ástæðulausu.
Þetta vélspunna bómullarnammi, var fundið upp árið 1897 af tannlækninum William Morrison og sælgætisfræðingnum John C. Wharton. Það náði fyrst almennri útbreiðslu árið 1904, er það var kynnt til leiks á heimssýningu í St. Louis, er hvorki meira né minna en 68.655 skammtar voru seldir – en þá kallaðist nammið „fairy floss“.
Það var síðan árið 1921 er tannlæknirinn Joseph Lascaux fann upp sambærilega vél til að snúa upp „bómullarnamminu“, en hann kallaði hnoðrana sína „cotton candy“. Fairy floss nafnið fjaraði því út, þó að það haldi enn velli í Ástralíu – en við þekkjum sælgætið í dag einna helst sem candyfloss.