Hvaða pönnur eru bestar í matargerð?

Guðrún Jóhannesdóttir í Kokku.
Guðrún Jóhannesdóttir í Kokku. Eggert Jóhannesson

Guðrún Jó­hann­es­dótt­ir í Kokku veit meira um eld­húsáhöld en flest­ir enda búin að grúska í þeim fræðum í fjölda ára.

Við feng­um hana til að svara spurn­ingu sem barst frá les­anda sem spurði ein­fald­lega: Hvernig pönnu mælið þið með og hvers vegna?

Svar Guðrún­ar var þetta:

Pönn­ur eru eins mis­jafn­ar og þær eru marg­ar og það er ekk­ert til sem heit­ir hin eina sanna rík­is­panna sem ger­ir allt. Þetta er svo­lítið svipað og skór, stund­um henta striga­skór, stund­um eru göngu­skór betri og svo lyfta spari­skór öllu á hærra plan. Þetta fer allt eft­ir hvað þú ert að gera. 

Húðaðar pönn­ur geta verið hent­ug­ar þegar unnið er með viðkvæm­an mat á lægri hita en henta eng­an veg­inn til að brúna eða steikja al­menni­lega.  Þær geta hins veg­ar verið frá­bær­ar til að spæla egg, syk­ur­brúna kart­öfl­ur eða hita upp mat. Þær eru líka þægi­leg­ur kost­ur þegar kem­ur að þrif­um, enda fest­ist jú ekk­ert við þær.

Ég mæli með að velja alltaf húðaða pönnu án eit­ur­efna (PFOA eða PFOS) og til að tryggja betri end­ingu ætti ekki að nota húðaðar pönn­ur á hærri hita en 250°C.

Stálp­önn­ur geta verið góður kost­ur þegar unnið er með sýru­rík­an mat sem þarf að malla enda bregst ryðfrítt stál ekki við sýru og þolir einnig háan hita. Þær henta mjög vel þegar græn­meti eða kjöt er fyrst brúnað við háan hita og svo látið malla í víni eða sósu sem inni­held­ur tóm­ata eða sítr­ónusafa.

Á mínu heim­ili verður járn­panna oft­ast fyr­ir val­inu. Al­menni­leg óhúðuð járn­panna end­ist ævi­langt ef rétt er með hana farið og eng­in panna brún­ar bet­ur. Þykk­ur botn­inn held­ur jöfn­um og stöðugum hita og virk­ar jafn vel við lág­an og háan hita. Járn­panna verður líka bara betri við hverja notk­un enda brenn­ur olí­an sem steikt er upp úr inn í pönn­una og ger­ir hana al­veg viðloðun­ar­fría með tím­an­um. Svo er hún bara svo fjöl­hæf. Það er frá­bært að geta steikt fyrst við háan hita á hell­unni og klárað svo mat­seld­ina á lægri hita í ofni. Allt græn­meti smakk­ast bet­ur eft­ir meðferð í járn­pönnu, þökk sé Maill­ard áhrif­un­um. Það er þegar amínó­sýr­urn­ar og sykr­urn­ar í matn­um um­hverf­ast við háan hita og auka bragð mat­ar­ins. Til þess að ná þess­um áhrif­um fram þarf háan hita og einnig þarf að gæta þess að þerra græn­metið eða kjötið áður en það er sett á heita pönn­una.

Járnið er hægt að nota á all­ar gerðir elda­véla og í ofni enda er  djúp járn­panna líka frá­bært bök­un­ar­form fyr­ir pönnup­izz­ur, græn­met­is­bök­ur, kök­ur og pæ.

Svo er alltaf gam­an að nota koparpönn­ur, sér­stak­lega þegar gæta þarf vel að réttu hita­stigi, enda er eng­inn málm­ur sem bregst hraðar við hita­breyt­ing­um. Þær eru best­ar þegar þú vilt hafa full­komna stjórn. Mik­il­vægt er að velja koparpönnu sem er húðuð með ryðfríu stáli, þær end­ast ævi­langt. Stund­um er hægt að fá tin­húðaðar pönn­ur á lægra verði, en ég mundi ekki mæla með þeim í elda­mennsku þar sem tin hef­ur lágt bræðslu­stig. Þær eru frek­ar notaðar til að bera fram mat.

Að lok­um eru nokkr­ar al­menn­ar regl­ur til að auka end­ingu á pönn­um.

  • Ekki hita of hratt!  Svo­kallaður booster á span­hell­um hent­ar til dæm­is eng­an veg­inn fyr­ir pönn­ur. Best er að nota þá still­ingu bara fyr­ir potta fulla af vatni, svo snörp hita­breyt­ing get­ur orðið til þess að pann­an verp­ist og þá er hún ónot­hæf á slétt hellu­borð.
  • Verið meðvituð um hita! Hár hiti brún­ar vel, en of mik­ill hiti brenn­ir. Þetta er kannski skrýtið ráð, en það ótrú­legt hversu marg­ir kenna pönn­unni um frek­ar en hit­an­um þegar mat­ur brenn­ur við.
  • Ekki þvo of mikið! Það fest­ist frek­ar við pönnu sem er búið að þrífa of vel. Járn­pönn­ur á til dæm­is bara að þvo með heitu vatni og stíf­um bursta. Þú bygg­ir upp góða húð með notk­un og þú vilt ekki þvo hana alla burt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka