Hvernig hnífar henta best í eldhúsið?

Guðrún Jóhannesdóttir í Kokku.
Guðrún Jóhannesdóttir í Kokku. Árni Sæberg

Guðrún Jó­hann­es­dótt­ir í Kokku veit meira um eld­húsáhöld en flest­ir enda búin að grúska í þeim fræðum í fjölda ára.

Við feng­um hana til að svara spurn­ingu sem barst frá les­anda sem spurði ein­fald­lega: Hvernig hnífa á ég að velja mér í eld­húsið?

Svar Guðrún­ar var þetta:

Góður hníf­ur er mik­il­væg­asta verk­færið í eld­hús­inu. Ekki síður mik­il­vægt er að hugsa vel um hníf­inn sinn, nota hann rétt og halda bit­inu við.

Al­geng­ustu hníf­ar í ís­lensk­um eld­hús­um eru klass­ísk­ir evr­ópsk­ir hníf­ar en einnig hafa jap­ansk­ir hníf­ar orðið al­geng­ari á síðustu árum. Klass­ísk­ir jap­ansk­ir hníf­ar þurfa þó meira viðhald og sérþekk­ing­ar þegar kem­ur að því að brýna.

Þegar velja skal hníf er svo­nefnd­ur kokka­hníf­ur sá sem hef­ur mesta nota­gildið.  Kokka­hníf­ar eru með breiðu blaði og fást í nokkr­um lengd­um, en ein vin­sæl­asta lengd á blaði er 21 cm. Gott er að máta hníf­inn, vega hann í hendi sér og finna rétta stærð.  Hann er notaður í flest sem vinna þarf í eld­húsi, skera, saxa, hakka. Ef kokka­hníf­ur­inn er vel val­inn verður hann besti vin­ur þinn í eld­hús­inu.

Í sum verk­efni er kokka­hníf­ur­inn of stór og þá get­ur verið gott að eiga einn minni hníf.  Lít­ill græn­met­is­hníf­ur get­ur verið frá­bær til að skræla, skera kjarna úr græn­meti og ávöxt­um og þess hátt­ar.  Hann get­ur líka hentað vel til að skera ost og pyls­ur.

Þriðji hníf­ur­inn sem mér finnst nauðsyn­leg­ur er brauðhníf­ur. Sér­stak­lega ef fólk er hrifið af súr­deigi. Góður brauðhníf­ur er með bylgjuslíp­un og nógu löngu blaði til þess að hægt sé að saga brauðið í löng­um og létt­um strok­um. Best er að blaðið sé minnst 10 cm lengra en brauðið er breitt.

Hvort fleiri hnífa vant­ar í eld­húsið fer eft­ir því hvað fólk er að gera. Það get­ur verið gott að eiga flök­un­ar- eða úr­bein­ing­ar­hníf, en bara ef fólk er að flaka og úr­beina heima við. Í þessu sem öðru gild­ir að kaupa bara það sem maður not­ar og kaupa frek­ar færri en betri hnífa. Það eru fáir sem hafa eitt­hvað við stórt hnífa­sett að gera.  Frek­ar en að kaupa sett með 12 hníf­um og standi ætti að velja gæði um­fram magn.

Hvað gæðin snert­ir eru hníf­ar eins mis­jafn­ir og þeir eru marg­ir. Að mínu mati er eng­inn hníf­ur betri en sá sem hef­ur verið unn­inn í hönd­un­um af fag­manni.  Hnífarn­ir sem við í Kokku bjóðum upp á eru frá tveim rót­grón­um fjöl­skyldu­fyr­ir­tækj­um í Þýskalandi. Güde hnífarn­ir eru úr blöndu af krómi, vanadíni og mó­lýbd­en (Cr/​V/​Mo) og eru blöðin ís­hert til að ná betri herslu og þar með end­ingu. Þau ná herslu upp á 57 til 58 Hrc á Rockwell kvarðanum.

Við erum líka með vind­myllu hníf­ana frá Robert Her­der hnífa­smiðjunni. Þeir eru gjarn­an með tréskafti sem fer ákaf­lega vel í hendi og þeir bjóða einnig upp á hnífa með hærra hlut­falli af kar­boni í blaðinu. Þá næst enn meiri hersla en á móti kem­ur að þeir hníf­ar eru ekki ryðfrí­ir. Það kem­ur þó ekki að sök enda er harðbannað að setja hnífa í uppþvotta­vél, það fer svo illa með bitið.  Enda tek­ur sama tíma að skola hníf­inn og þurrka af hon­um eins og að opna uppþvotta­vél­ina og loka henni aft­ur.

Ég mæli með að geyma hníf­ana í slíðri eða hníf­astandi, en forðast að hafa þá lausa í skúffu. Fyr­ir utan slysa­hætt­una þá fer mun bet­ur um hníf­ana í viðeig­andi hirslu og bitið end­ist mun leng­ur.  Svo þarf alltaf að halda bit­inu við. Alls ekki láta telja ykk­ur trú um að best sé að kaupa fín­tennta hnífa sem aldrei þurfi að brýna. Það eina sem á að skera með tennt­um hníf er brauð, allt annað á að skera með beitt­um hníf.  Það er líka auðveld­ara að brýna hníf en flest­ir halda. Það er um að gera að kíkja til okk­ar í Kokku og fá ráðgjöf og svo er líka hægt að koma með hnífa til okk­ar í brýn­ingu.

Kær kveðja

Guðrún

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka