Kanilsnúðar með æðislegu vanillukremi

Æðislegir snúðar með vanillukremi.
Æðislegir snúðar með vanillukremi. Mbl.is/Helga Magga

Það er varla hægt að sleppa góðri snúðauppskrift úr hendi – og er þessi hér með þeim betri, fyrir utan hversu einfaldir þeir eru í framreið. Uppskriftin kemur frá Helgu Möggu  sem segir vanillukremið setja punktinn yfir i-ið en mælir með að setja bara krem á þá snúða sem á að borða hverju sinni og geyma kremið í ísskáp ef ætlunin er að geyma þá yfir nótt.

Kanilsnúðar með æðislegu vanillukremi

14-16 snúðar

  • 2 bollar hveiti/275 gr
  • 1 ½ bolli hreint Ísey skyr/365 gr
  • 1 msk. lyftiduft/15 gr
  • Smá salt (½ tsk)
  • 2 msk. eggjahvíta/30 gr til penslunar
  • 2 msk. sykur (eða gervisæta)
  • 1 msk. kanill

Vanillukrem

  • 1 lítil dós Ísey vanilluskyr
  • 50 ml mjólk (ég notaði léttmjólk)

Aðferð:

  1. Setjið hveitið, skyrið, lyftiduftið og saltið saman í skál og hnoðið saman, mér finnst þægilegast að nota hrærivélina í þetta en það er líka hægt að hræra þetta í höndunum.
  2. Fletjið deigið út í ferhyrning. Penslið deigið með eggjahvítu, stráið kanilsykrinum yfir og rúllið deiginu upp.
  3. Skerið niður í 14-16 snúða. Raðið á bökunarpappír með hæfilegu bili á milli snúða.
  4. Bakið við 180 gráður í 15 -18 mín. Ég nota blástursofn.
  5. Vanillukremið er gert með því að blanda saman Ísey vanilluskyri og mjólk. Það er hægt að setja vanillustevíu út í það ef fólk vill fá meiri sætu eða vanilluduft.

Það er gott að hafa í huga að þessi uppskrift er gerð með það í huga að bæta próteini í næringuna, deigið á það til að vera klístrað og blautt, bætið þá aðeins meira hveiti við.

Mbl.is/Helga Magga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka