Sjónvarpskonan Teresa Giudice, úr þáttunum The Real Housewives of New Jersey, giftist sínum heittelskaða nú á dögunum og kakan var stórbrotin. Teresa og Luis Ruelas kynntust árið 2020 við tökur á þáttunum.
Parið gekk í hjónaband í návíst 220 gesta í New Jersey og það var Palermo Bakery sem sá um glæstu kökuna sem taldi einar sjö hæðir eða um 114 sentimetra. Kakan var hvít á litinn og bar hálfgerða kristals-krónu fyrir miðju kökunnar. Toppurinn var skreyttur með hvítum blómum sem og neðst við kökubotninn – þar sem einnig má sjá glitta í tvö stór hjörtu. Hér var hugsað út í öll smáatriðin! Kakan var með vanillubotnum, sem er í miklu uppáhaldi hjá brúðgumanum.
Maturinn í veislunni var heldur ekki af verri endanum. Fjöldi rétta var á matseðli. Þar á meðal alvörusteik að hætti heimamanna. Síðar um kvöldið mættu trukkar á svæðið með nætursnarl handa gestum – þar á meðal var boðið upp á pítsu, sheik og nammibar, sem er ávallt mjög vinsælt þegar fólk hefur rifið af sér skóna og kastað sér út á dansgólfið.