Ómótstæðilegur marengs með karamellu & eplum

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir

„Þessi er algjört nammi! Marengs með karamellu og eplum. Ég verð að segja að hann bragðaðist einstaklega vel enda hugmynd sem ég var búin að vera hugsa lengi og hugsaði að þetta geti gengið vel saman. Að þessu sinni rúllaði ég marengsinn upp í rúllu og hann verður alveg svolítið messí hjá manni ef ég má sletta svo það er einnig lítið mál að gera hann líkt og klassískan marengs með tveimur botnum og fyllingu á milli – Ég ætla að prófa það næst. En marengsrúllan er skemmtilegt tvist á marengsinn svo mæli líka alveg með að þið prófið það,“ segir Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir á Döðlur & smjör um þessa dýrindis marengs rúllutertu sem er eiginlega nauðsynlegt að prófa.

„Svo ætla ég ekkert að hræða ykkur, þið getið að sjálfsögðu keypt karamellusósu út í búð og flýtt fyrir ykkur með því. En ég hef verið einstaklega klaufsk við að útbúa karamellu í gegnum tíðina og mér hefur reynst best að gera hana með sykursíróps grunni eins og er hér, svo ef þú ert klaufi eins og ég þá mæli ég með að þú prófir þessa,“ segir Guðrún að lokum.

Marengs með karamellu og eplum

Marengs

  • 4 eggjahvítur
  • 220 g sykur

Stillið ofn á 160°c. Hrærið saman eggjahvítum og sykri þangað til blandan er orðin stíf. Dreifið marengsnum yfir bökunarpappírsklædda plötu, gott er að miða við að reyna fylla út í bökunarpappírinn með u.þ.b. cm í kant. Eða skipta blöndunni í tvennt og gera tvo u.þ.b. 20 cm hringi á bökunarpappír. Bakið í 25-30 mín. Ef þið eruð að gera rúllu, þá er gott að taka bökunarpappír og viskastykki og leggja yfir marengsinn og rúlla honum upp meðan hann er volgur og leyfa honum að kólna, þannig nær hann að halda forminu.

Karamellusósa
  • 200 g sykur
  • 50 ml vatn
  • 100 ml rjómi
  • 50 g smjör

Setjið sykur og vatn saman í pott á miðlungshita. Leyfið blöndunni að malla án þess að vera að hræra í henni þangað til að allur sykurinn er bráðinn, fylgist með þegar hún fær á sig gylltan lit. Þegar hún hefur fengið á sig lit er gott að slökkva undir og bæta rjómanum saman við og hræra á meðan. Þá er smjörinu blandað saman við og þá ætti karamellan að vera klár. Hellið í krukku sem hægt er að loka og leyfið að kólna.

Fylling

  • 2 epli
  • 2 msk vatn
  • ½ tsk kanill
  • 2 msk karamella
  • 1 pk karamellubúðingur
  • 250 ml mjólk
  • 250 ml rjómi

Skrælið eplin, skerið í smáa bita og setjið í pott á miðlungsháan hita ásamt smá vatni og kanil. Leyfið eplunum að sjóða í 5-10 mín, gott er að hafa smá bit í þeim. Bætið karamellusósunni saman við í lokin og hrærið saman. Setjið í skál og leyfið að kólna.

Blandið búðingsduftinu saman við 250 ml mjólk og leyfið að stífna. Þeytið rjómann á meðan og blandið síðan saman.

Þá er bara að taka fram marengsinn og dreifa karamellurjómanum yfir, þá næst er eplunum sáldrað yfir. Rúllið upp eða setjið seinni marengsinn ofan á. Leyfið marengsnum að taka sig í kæli í minnst 2-3 klst.

Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka