Flest vildum við borða oftar fisk enda eitt það allra besta og hollasta sem hægt er að gæða sér á. Hér er á ferðinni æðisleg uppskrift frá Guðrúnu Ýri á Döðlum & smjöri sem ætti að hitta í mark á flestum heimilum enda frábær.
Ég er alltaf að reyna að vera duglegri að borða fisk og hef á tilfinningunni að það séu margir sem tengja þar. Mér finnst vissulega soðinn fiskur með kartöflum alveg lúmskt góður en ég reyni að vera dugleg að gera ólíka fiskrétti því mér finnst það fara vel ofan í fjölskylduna og það er alltaf gott að bæta við flóruna sem maður er að vinna með af fiskréttum. Svo ég vona að þessi slái í gegn á ykkar heimilum og fái fasta viðveru þar.
Þorskur í sítrónurjómasósu
Fyrir 4
- 800 g fiskur (þorskur eða ýsa)
- 1 msk. olía
- 1 blaðlaukur
- 3 hvítlauksrif
- 2 msk. sterkt sinnep (dijon)
- 2-3 msk. sítrónusafi
- 100 ml rjómi
- 100 ml hreinn smurostur
- salt & pipar eftir smekk
- rifinn ostur (má sleppa)
- basilíka
Aðferð:
- Stillið ofn á 200°C. Skerið fiskinn í bita og leggið í eldfast form.
- Skerið þá blaðlaukinn í sneiðar og setjið í pott ásamt olíu og kreistum hvítlauk, leyfið því að steikjast í 2-3 mín.
- Bætið saman við sinnepi, sítrónusafa, rjóma, smurosti og salti og pipar, hrærið vel saman.
- Þessu er leyft að blandast saman þar til smurosturinn er allur bráðnaður.
- Dreifið þá úr pottinum yfir fiskinn og setjið ost yfir ef ykkur langar.
- Setjið inn í ofn í 15 mín, takið út og dreifið ferskri basilíku yfir réttinn.
- Gott er að bera réttinn fram með hrísgrjónum eða kartöflum og fersku salati.
Ljósmynd/Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir