Þórunn hannaði kerti fyrir Mörthu Stewart

Þórunn Árnadóttir er annar eigandi 54 Celsius - sem hannar …
Þórunn Árnadóttir er annar eigandi 54 Celsius - sem hannar geysivinsæl kerti. mbl.is/Aldís Pálsdóttir

Þegar vel gengur, þá er afskaplega ánægjulegt að sjá tengingu við okkar fólk hér á landi. Nýverið komu út Halloween kerti sem Martha Stewart kynnti í stórkostlegu myndbandi, sem hönnuð eru meðal annars af Íslendingi. Við náðum tali af Þórunni Árnadóttur sem er betur þekkt sem hönnuðurinn á bak við Pyropet kertin - en hún og Dan Koval reka saman fyrirtækið 54 Celsius sem standa á bak við kertið. Þórunn sér um hönnunarstjórnun og Dan um viðskiptahliðina.

„Þetta ævintýri hófst allt með kisukerti sem hafði að geyma beinagrind innan í vaxinu. Við Dan leiddum saman hesta okkar í að koma kertinu í framleiðslu og sölu og höfum selt hin geysivinsælu Pyropet kerti í yfir 30 löndum um allan heim síðan árið 2014. Auk Pyropet, framleiðum við nú ýmiskonar önnur kerti og vörur í samstarfi við aðra hönnuði og listamenn undir merkjum 54 Celsius, þar sem áherslan er á einstaka hönnun og gæði. Markmið okkar hjá 54 Celsius er að finna nýja möguleika í kertum í nútímalegu samhengi, en við erum að verða nokkuð þekkt fyrir óvenjulegt og áhugavert úrval á kertum,” segir Þórunn í samtali.

Íslendingar ættu að þekkja þessi kerti vel - þegar kertavaxið …
Íslendingar ættu að þekkja þessi kerti vel - þegar kertavaxið brennur niður, þá situr beinagrindin eftir. mbl.is/54 Celsius


Martha Stewart óskaði eftir samstarfi
Í byrjun árs hafði fyrirtækið Liquid Death Mountain Water samband við Þórunni og Dan og vildi fá þau til að hanna og framleiða kerti fyrir þau, eftir þeirra hugmynd. Liquid Death er ungt fyrirtæki sem er á gífurlegri uppleið í Bandaríkjunum, en það er orðið þekkt fyrir óvenjulega markaðssetningu á vatni í áldósum. „Við höfum tekið að okkur sambærileg verkefni áður, t.d. fyrir stóra verslunarkeðju þar ytra í samstarfi við Disney, og líka sérhönnuð kerti fyrir Tim Burton. Við erum orðin mjög sjóuð í kertahönnun og erum með mjög gott samstarf við nokkrar kertaverksmiðjur - svo önnur fyrirtæki eru farin að leita til okkur æ oftar með svona verkefni. Þetta var upphaflega bara lítil pöntun, um eitt þúsund stykki, en fyrir rétt tæplega tveimur mánuðum höfðu þau aftur samband og tilkynntu okkur að Martha Stewart hefði áhuga á að setja merkið sitt á kertin og selja þau fyrir Halloween. Pöntunin var því stækkuð upp í 15 þúsund stykki! Það þurfti því að spíta í lófana og allt var sett í fimmta gír. Þetta hafðist allt að lokum, Liquid Death gerði mjög flippað myndband með Mörthu sem sló rækilega í gegn á netinu,” segir Þórunn og við hér á matarvefnum deildum umræddu myndbandi fyrir alls ekki svo löngu.

Kertið sem Martha Stewart vildi fá nafnið sitt á.
Kertið sem Martha Stewart vildi fá nafnið sitt á. mbl.is/Liquid Death Mountain

Spennandi verkefni framundan
Það er nóg framundan hjá 54 Celcius segir Þórunn og nefndir meðal annars samstarf við hollenska hönnuðinn Lex Pott, en þau eru nú þegar að selja kerti hönnuð af honum og hafa þótt geysivinsæl. „Önnur vara kemur líka fljótlega á markað, sem er gerð í samstarfi við fyrirtæki sem heitir Walden og er frá New York og sérhæfir sig í vörum ætluðum hugleiðslu. Síðan erum við líka nýbúin að taka að okkur framleiðslu og sölu á kertum eftir hönnuð sem heitir Carl Durkow, en þau verða fáanleg hér heima eftir örfáar vikur. Þar að auki er ég með allskonar spennandi vörur í þróun fyrir 54 Celsius - sumt er í samstarfi við önnur fyrirtæki, eins og t.d. Rammagerðina og Epal, en það kemur allt í ljós snemma á næsta ári,” segir Þórunn að lokum.

Hægt er að fylgjast með ævintýrum 54 Celcius á Instagram HÉR

mbl.is/
Kerti frá 54 Celsius, en það eru til margar útfærslur …
Kerti frá 54 Celsius, en það eru til margar útfærslur og litir af þessu kerti.
mbl.is/54 Celsius
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert