Sjávarsetrið var nýverið opnað við höfnina í Sandgerði, en þar er hlý og notaleg stemning og afburðagóður matur á borðum.
Tvenn hjón létu drauma sína rætast og opnuðu veitingastað suður með sjó. Beggu og Elfar, ásamt Örnu og Símoni, hafði lengi dreymt um að hefja fjölskyldurekstur en samstarfið hófst eftir tíð matarboð þeirra á milli – og við vitum flest að margar góðar hugmyndir fæðast með góðum samræðum og mat á borðum. Sjávarsetrið tekur 60 manns í sæti en býður jafnframt upp á huggulegar setustofur, þar sem hægt er að njóta samverunnar bæði fyrir og eftir mat.
„Við hjá Sjávarsetrinu höfum ólíka reynslu, sem nýtist einstaklega vel í því verkefni sem það er að reka veitingastað. Hvort sem það er list í matargerð, gestrisni, fyrirtækjarekstur eða viðhald húsnæðis og svo mætti lengi telja. Saman myndum við góða heild,“ segir Begga í samtali.
Grillaðar ostrur vinsælastar á matseðli
Sjávarsetrið býr yfir þeirri sérstöðu að borhola er á staðnum, sem gerir þeim kleift að halda sjávarfangi lifandi – en grillaðar ostrur í rockefellersósu með kryddsmjöri eru það vinsælasta á matseðli. „Við erum í stöðugri vöruþróun í að bera ostrurnar fram á mismunandi vegu, enda eru ostrur aldrei af skornum skammti hér og stutt að sækja þær í bakgarðinn. Krabbasúpan er einnig vinsæl, en það er uppskrift sem við Elfar höfum hrist fram úr erminni,“ segir Begga.
Það má einnig finna hefðbundinn matseðil á Sjávarsetrinu, sem virðist falla vel í kramið hjá heimamönnum – en þá er átt við hamborgara, nautalund, fisk og franskar svo fátt eitt sé nefnt. Að sögn Beggu mun matseðillinn stækka og bætast í fjölbreytileika sjávarfangsins með tímanum.