„Bestu bollurnar samankomnar á einum stað“

Það bókstaflega rignir bollum þessa dagana enda þjóðin í startholunum fyrir besta dag ársins. Að venju gefur Hagkaup út glæsilegan bollubækling en að sögn Evu Laufeyjar Hermannsdóttur, markaðs- og upplifunarstjóra Hagkaups hefur hann aldrei verið girnilegri. Að auki verður boðið upp á úrval af bollum í verslunum Hagkaups en meðal nýjunga þar á bæ eru bollur frá 17 Sortum.

„Nú er bollubæklingurinn okkar mættur í öllu sínu veldi en það var Harpa Gústavsdóttir sem hannaði bæklinginn af sinni alkunnu snilld. Við tókum saman okkar vinsælustu bollu uppskriftir auk þess sem við fengum bakarasnillinga til þess að deila með okkur nýjum uppskriftum. Meðal þeirra er ljúffeng makkarónubolla frá Sylvíu Haukdal, svakalega girnileg og djúsí bolla með súkkulaðirjóma frá 17 Sortum og svo fengum við Veganistur með okkur í lið og í blaðinu má finna æðislegar vegan uppskriftir. Þarna eru því bestu bollurnar samankomnar á einum stað.”

„Það ættu allir að finna uppskrift við sitt hæfi og um að gera að prófa sig áfram og þetta þarf ekki að vera einn dagur heldur er um að gera að nota helgina í bakstur og baka eins margar tegundir og ykkur langar til. Ég get ekki til dæmis ekki beðið eftir að prófa þessar nýju uppskriftir og fá mér bollur um helgina, en ég bíð spennt eins og samlandar mínir eftir bolludeginum ár hvert. Það er því geggjað að geta fengið innblástur og hugmyndir að uppskriftum í þessum girnilega bækling og ég ætla að fullyrða að þetta sé sá besti sem við höfum gefið út, enda erum við sífellt að bæta við geggjuðum uppskriftum,” segir Eva og bætir því við að þar á bæ sé allt tilbúið fyrir bolluhelgina miklu en tilbúnu bollurnar koma í verslanir á föstudaginn.

„Við erum heldur betur klár í bolludaginn, bæði erum við með bæklinginn og svo seljum við úrval af bollum í okkar verslunum. Bæði úr bakaríinu okkar og svo ætla 17 Sortir að bjóða upp á gómsætar bollur. Við bjóðum meðal annars upp á gerbollur með rjóma og súkkulaði, vatnsdeigsbollur með jarðarberjum, Irish cream rjóma og yfirgengilega góðar vatnsdeigsbollur með banana og rjóma. Við getum hreinlega ekki beðið eftir því að taka á móti ykkur fyrir bolludaginn.”

Bollubæklinginn er hægt að nálgast HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka