Helena fullyrðir að þetta séu bestu rjómabollurnar

Ljósmynd/Helena Gunnars

Besti dagur ársins er framundan og þá er ekki úr vegi að prófa dásamlegar rjómabollur og dunda svolítið við samsetninguna til að fá hina fullkomnu bollu. Hér er um að ræða klassíska vatnsdeigsbollu sem er fyllt með himnesku vanillukremi, rjóma og ferskum jarðarberjum og toppuð með ekta súkkulaðiganache. Það er Helena Gunnarsdóttir sem á heiðurinn að þessum bollum sem hún fullyrðir að séu bestu rjómabollur sem hún hefur smakkað.

Lúxusbollur með vanillukremi og jarðarberjum

Vatnsdeigsbollur

  • 300 ml vatn
  • 100 g smjör
  • 1 msk. sykur
  • 150 g hveiti
  • 4 stk. egg (pískuð)

Vanillukrem

  • 250 ml rjómi frá Gott í matinn
  • 250 ml mjólk
  • fræ úr einni vanillustöng
  • 75 g sykur
  • 3 msk. maíssterkja (Maizena mjöl)
  • 5 stk. eggjarauður
  • 3 msk. kalt smjör

Súkkulaðiganache

  • 150 g gæðasúkkulaði að eigin vali
  • 100 ml rjómi frá Gott í matinn

Fylling

  • 500 ml rhómi frá Gott í matinn
  • fersk jarðarber

Vatnsdeigsbollur

  1. Ofn hitaður í 190 gráður með blæstri. Setjið vatn, sykur og smjör í pott við meðalhita og hleypið suðunni upp, sjóðið þar til smjörið bráðnar.
  2. Með pottinn ennþá á heitri hellunni - hellið hveitinu saman við vökvann og hrærið kröftuglega með sleif þar til það myndast myndarleg, slétt deigkúla og deigið losnar alveg frá köntunum.
  3. Færið deigið yfir í hrærivélaskál og leyfið mesta hitanum að rjúka úr, í u.þ.b. 10 mínútur. Gott að hræra aðeins í deiginu til að flýta fyrir kólnun.
  4. Pískið eggjunum saman í skál eða könnu. Kveikið á hrærivélinni og hellið eggjablöndunni hægt og rólega saman við deigið og hrærið vel inn á milli. Ef eggin eru mjög stór þarf kannski ekki að nota þau öll. Deigið á að vera glansandi og ekki of þunnt. Gott viðmið er að þegar sleif er stungið í deigið og lyft upp myndar deigið V sem lekur samt ekki af sleifinni heldur hangir.
  5. Deiginu sprautað eða sett með skeið á plötu (magn af deigi í hverja er bollu u.þ.b. 1 msk) bakið í 22 mínútur. Þessi uppskrift gefur um 15 meðalstórar bollur.
Vanillukrem
  1. Mjólk, rjómi og vanilla sett saman í pott og hitað alveg upp að suðu, ekki láta sjóða.
  2. Sykri, maíssterkju og eggjarauðum pískað vel saman í stórri skál þar til ljóst og létt.
  3. Heitri mjólkinni hellt mjög rólega saman við eggin og hrært vel á meðan.
  4. Eggja- og mjólkurblöndunni svo hellt aftur í pottinn og hitað á meðalhita upp að suðu, hrært í allan tímann.
  5. Þegar þið sjáið blönduna bubbla aðeins slökkvið undir og takið af hitanum. Hrærið köldu smjörinu saman við þar til alveg bráðnað. Hellið vanillukreminu í sigti og þrýstið í gegn með skeið þar til silkimjúkt. Setjið í skál og plastfilmu yfir þannig að filman snerti vanillukremið.
  6. Kælið alveg.

Súkkulaðiganache

  1. Saxið súkkulaðið og setjið í skál
  2. Hitið rjómann að suðu og hellið yfir súkkulaðið.
  3. Látið standa í 2-3 mínútur og hrærið svo saman þar til þið eruð komin með glansandi fallegt súkkulaðikrem.

Samsetning

  1. Skerið vatnsdeigsbollu í tvennt.
  2. Fyllið botninn með 1 msk. af vanillukremi.
  3. Skerið ferks jarðarber í bita eða sneiðar og setjið ofan á vanillukremið og því næst þeyttan rjóma.
  4. Lokið bollunni og toppið með súkkulaðiganache.

Höfundur: Helena Gunnarsdóttir

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka