Þau tíðindi berast úr herbúðum Freyju að nýtt páskaegg sé væntanlegt í verslanir. Um er að ræða páskaegg sem unnið er úr hinum vinsælu Bombum.
„Fyrir skömmu settum við aftur á markað í neytendapakkningum klassísku Freyju Bomburnar. Bomburnar eru með ljúffengri vanillufyllingu og hjúpaðar Freyju mjólkursúkkulaði. Við vorum vongóð á viðtökurnar, en okkur óraði ekki alveg fyrir að þetta yrði svona vinsæl vara,“ segir Pétur Thor Gunnarsson, framkvæmdastjóri Freyju.
„Í framhaldi ákváðum við að þróa nýtt Bombu-egg sem er komið í verslanir. Vöruþróunin gekk vel og erum við ákaflega ánægð með nýjungina í ár. Viðtökurnar hafa núna strax í byrjun sömuleiðis verið mjög góðar og við erum núna að endurskoða hvort við getum hreinlega aukið við framleiðsluna fyrir páska því við viljum ekki að fólk grípi í tómt“
„Páskarnir eru bara einu sinni á ári. Það er uppáhalds hátíð margra landsmanna og klárlega uppáhalds hátíðin okkar í Freyju,“ segir Pétur. „Það er mikið handaverk í kringum íslensku páskaeggin enda eru þau alveg einstök. Landsmenn vilja í auknu mæli mjólkursúkkulaðiegg tengdum nýjum og rótgrónum sælgætistegundum, svo sem Draumaegg, Rísegg og Djúpuegg,“ segir Pétur og ljóst að sælgætisframleiðendur eru að svara því kalli neytenda.