Eitt vinsælasta sælgæti Svíþjóðar komið til landsins

Ljósmynd/Cloetta

Við nánari eftirgrennslan kemur í ljós að sælgætið er eitt það vinsælasta í Svíþjóð og hefur verið á markaði þar síðan 1965. Það er þó mun eldra því grunnurinn var lagður árið 1887 þegar sænski kaupmaðurinn Thure Billsten hóf að framleiða sultufyllta súkkulaðimola sem urðu afar vinsælir. Polly-pokarnir litu svo dagsins ljós nokkrum áratugum síðar þegar einhverjum flippkisanum datt í hug að hjúpa sykurpúða með súkkulaði. Til að byrja með voru bragðtegundirnar í pokanum þrjár; karamella, romm og vanilla.

Polly sigrar sænska konungsveldið

Vinsældir Polly urðu miklar og hafa haldið sér í gegnum árin. Af öllum vörutegundum sænska matvælafyrirtækisins Cloetta, núverandi eiganda vörumerkisins og fjölda annarra, er Polly eitt það allra mest selda og samkvæmt heimildum okkar er Polly vinsælasta súkkulaðið í pokum í gervallri Svíþjóð. Þá hefur bragðtegundum fjölgað jafnt og þétt í gegnum tíðina og skipta nú tugum.

Landnám Íslands

Það var svo á síðasta ári sem Polly hóf loks innreið sína á íslenskan markað, en það er fáanlegt hér á landi í fimm bragðtegundum. „Polly er búið að vera eitt vinsælasta sælgæti Svíþjóðar í áratugi og tími til kominn að Íslendingar fái að smakka það,“ segir Drífa Hrund Árnadóttir, sölu- og markaðsstjóri hjá Danól, innflutningsaðila Polly í samtali við mbl.

Að hennar sögn hafa viðtökurnar verið afar góðar og ekki er ólíklegt að fleiri bragðtegundir bætist í hópinn þegar fram líða stundir. „Svo eru reglulega framleiddar árstíðabundnar bragðtegundir, sem eru þá fáanlegar í takmarkaðan tíma,“ bætir Drífa við og útilokar ekki að þær bragðtegundir muni rata hingað. „En þetta fer vel af stað og það er gaman að sjá að Polly er nú þegar orðið fastagestur í nammiskálum Íslendinga, þótt fyrr hefði verið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka