Einn besti matreiðslumaður landsins opnar veitingastað

Micaela Ajanti, aðstoðaryfirkokkur, Andrea Ylfa Guðrúnardóttir veitingastjóri, Darri Már Magnússon …
Micaela Ajanti, aðstoðaryfirkokkur, Andrea Ylfa Guðrúnardóttir veitingastjóri, Darri Már Magnússon yfirbarþjónn, Helena Toddsdóttir vaktstjóri og Sigurður Laufdal, eigandi og yfirkokkur.
Nýjasta viðbótin við veitingaflóru borgarinnar er í höndum þungavigtarstjörnu í bransanum. Maðurinn á bak við matinn er enginn annar en Sigurður Laufdal sem hefur víða komið við á sínum ferli; allt frá því að vera kosinn matreiðslumaður ársins, keppa í Bocuse D'Or og vinna sem sous chef á einum þekktasta veitingastað heims, Geranium í Kaupmannahöfn. Nú vendir Sigurður kvæði sínu í kross og opnar eigin veitingastað í miðborg Reykjavíkur.
Staðurinn kallast OTO og er til húsa á Hverfisgötu 44, þar sem Yuzu var áður. Það reyndist skemmtileg tilviljun því Yuzu er með japanskar áherslur í sinni matreiðslu og hönnun og því ákvað Sigurður að nýta þau áhrif þar sem þau voru þegar fyrir hendi. Í bland við það er svo ítölsk matargerð. „Mér finnst þetta virkilega skemmtilegt. Ég hef aldrei verið í þessari matargerð áður þannig að ég er að stíga langt út fyrir minn ramma, sem er spennandi áskorun,“ segir Sigurður en staðurinn er opinn frá þriðjudögum til sunnudags – og einungis á kvöldin.

Spennandi leikhúsmatseðill

„Við bjóðum einnig upp á sérstakan matseðil fyrir leikhús- og tónleikagesti,“ segir Sigurður en Þjóðleikhúsið er á næsta leiti sem og Harpa. Maturinn skiptist í fjóra flokka; boðið er upp á litla rétti til að deila upp í stærri rétti. Verðið sé afar hófstillt en mikið lagt upp úr gæðahráefni. „Við leggjum miklar pælingar í þetta og erum meðal annars með sérinnfluttar amalfi-sítrónur svo eitthvað sé nefnt.

Pælingin er að þú getir komið við og gripið þér einn til tvo rétti en svo sé líka hægt að koma í alvörukvöldverð með tilheyrandi. Þetta er því staður sem hentar flestum,“ segir Sigurður en mikið er lagt upp úr góðu veganúrvali. Matseðillinn er þéttur og fjölbreyttur og – sem fyrr segir – á afar góðu verði.

Gamall draumur að rætast

Sigurður segir að það hafi alltaf verið á tékklistanum að opna eigin veitingastað og nú sé sá draumur orðinn að veruleika. „Ég man þegar ég var að byrja, þá dreymdi mig um að verða matreiðslumaður ársins, vinna á flottum Michelin-stað og opna minn eigin veitingastað,“ segir Sigurður og nú hafa allir þeir draumar formlega ræst en Geranium er með þrjár Michelin-stjörnur.

„Fjölbreytileikinn er alltaf skemmtilegastur,“ segir Sigurður spurður hvaða kúnnar séu skemmtilegastir. „Mér finnst æðislegt að fá fólkið og vini úr bransanum því það hefur sterkar skoðanir á því sem við erum að gera og svo gesti sem koma af götunni sem eru ekki að pæla í neinu nema að njóta. Þetta eru skemmtilegir og ólíkir hópar en báðir afar mikilvægir.“

Spennandi matseðill

„Það eru margir réttir á matseðlinum sem ég held að muni koma íslenskum gestum skemmtilega á óvart,“ segir Sigurður aðspurður hverjir séu uppáhaldsréttirnir hans. „Sítrónueftirrétturinn okkar hefur nú þegar vakið mikla lukku en hann samanstendur af sítrónu sem er sérinnflutt fyrir okkur frá Amalfi og fer ekkert af henni til spillis. Við notum safann, aldinkjötið og börkinn, auk þess sem við gerum okkar eigið Limoncello. Bikinísamlokan er geggjuð, en það er spænsk grilluð samloka með skinku og osti sem við setjum í ítalskan búning og notum eingöngu ítölsk hráefni. Mér finnst hún upplögð sem smáréttur eða til að hefja máltíðina. Síðan er japanska mjólkurbrauðið okkar ótrúlega spennandi enda lungamjúkt og algjörlega einstakt,“ segir Sigurður en fjölbreytnin á seðlinum vekur athygli og við gulltryggjum að allir finni eitthvað við sitt hæfi enda ekki við öðru að búast þegar þungavigtarmaður á borð við Sigurð er við stjórnvölinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka