Hjá Jóni er nýr og glæsilegur veitingastaður á hinu nýja og föngulega Iceland Parliament hóteli við Austurvöll. Staðsetningin er ævintýri út af fyrir sig þar sem Dómkirkjan og Alþingi Íslendinga skarta sínu fegursta. Veitingastaðurinn er fallega innréttaður, stílhreinn með glæsilegu yfirbragði, hátt er til lofts og bjart er yfir staðnum.
Síðustu helgi byrjaði veitingastaðurinn með nýjan og glæsilegan bröns- og kampavínsseðil þar sem boðið er upp á ljúffengar og sætar stundir. Matarvefurinn heimsótti veitingastaðinn þar sem boðið var upp á nýjan og girnilegan brönsseðil. Móttökurnar voru hlýlegar og höfðinglegar og vísað var til sætis við glugga þar sem útsýnið var hið fegursta, táknrænar byggingar fönguðu augað og iðandi mannlíf fyrir utan.
Brönsseðillinn býður bragðlaukunum upp á ævintýralega upplifun þar sem hágæða hráefni mætast og alþjóðlegir straumar í matargerð eins og þeir gerast bestir. Rauði þráðurinn í seðlinum eru klassískir réttir með hleyptu eggi með fimm útfærslum, hverja annarri girnilegri. Má þar nefna hið klassíska Egg Benedikt og Royale Egg Benedikt með reyktum laxi. Einnig eru sérréttir Jóns sem kveikja í bragðlaukunum með fáguðu yfirbragði, eins og leturhumar í hvítlauk, með smjörsteiktu spínati og hleyptu eggi á enskri múffu með sítrónu Hollandaisesósu. Jafnframt er hægt að panta meðlæti með, ef vill. Síðan eru það freistingarnar, hinir ómótstæðilegu eftirréttir, allir svo freistandi að erfitt er að velja á milli þeirra.
Fyrir valinu varð seðill sem ber heitið Ljúffengar og sætar stundir, þar sem byrjað er á kampavínsglasi og valinn er einn klassískur réttur og ein freisting. Valið að þessu sinni var Egg Royale, sem er reyktur lax með hleyptu eggi, smjörsteiktu spínati á enskri múffu ásamt Hollandaisesósu, borið fram með salati á fallegan hátt. Freistingin sem varð fyrir valinu var súkkulaðibrúnka með Omnom karamellusósu, vanilluís og ferskum berjum. Réttirnir voru fagurlega bornir fram og einstaklega góðir. Bragðupplifunin var einstök, svo ljúft að njóta þessara rétta með kampavínsglasi. Egg Royale með reykta laxinum var ótrúlega gott, Hollandaisesósan með smá sítrónukeimi og áferðin silkimjúk.
Freistingin, súkkulaðibrúnka, stóðst væntingar og vel það. Í framhaldi var farið í dásamlegar pönnukökur, þær voru svo freistandi líka, bornar fram með tonka-sírópi og ferskum berjum. Ótrúlega bragðgóðar og hæfilega stór skammtur, fullkomið með kampavínsglasi.
Þjónustan var framúrskarandi góð, natið þjónustufólk og öll framsetning til fyrirmyndar. Yfirmatreiðslumeistarinn, Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, toppaði síðan brönsinn með því að koma og spyrja hvernig hefði smakkast og var umhugað um að upplifunin væri eins og best væri á kosið. Hún stóð vaktina í eldhúsinu með kokkateyminu sínu, þar sem þau töfruðu fram þessa ljúffengu og girnilegu brönsrétti sem slógu svo sannarlega í gegn.
Það skiptir sköpun þegar matargestir ætla að gera vel sig og njóta, að allt spili óaðfinnanlega saman, móttökurnar, þjónustan, maturinn, drykkirnir, framreiðslan og umgjörðin í heild sinni. Það má með sanni segja að teymið Hjá Jóni hafi staðið sig framúrskarandi vel til þess að matarupplifunin yrði góð og eftirminnileg. Virkilega vel heppnað að para brönsseðilinn með kampavíni fyrir þá sem það vilja og aðrir góðir drykkir bæði óáfengir og áfengir koma jafnframt vel út.